Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[16:29]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér söluna á Íslandsbanka og þessa skýrslu sem fyrir liggur. Það hefur komið okkur mörgum á óvart hversu innihaldsrík þessi skýrsla er í raun og veru, alla vega leið mér þannig við lestur þessarar skýrslu. Ég hafði ekki vænst þess að svo mikið væri í skýrslunni.

Við hv. þingmaður sitjum bæði í efnahags- og viðskiptanefnd. Hér hefur verið talað svolítið hortuglega um þær þingnefndir sem um málið fjölluðu, að þær hafi ekkert verið að vinna sína vinnu eða að setja einhver skilyrði. Til upprifjunar þá held ég að þetta hafi verið kynnt fyrir efnahags- og viðskiptanefnd sama dag og stríðið hófst í Úkraínu. Ég er með glærupakka sem Bankasýslan lagði fyrir okkur á þessum tíma. Þetta var glærupakki upp á 19 síður en aðeins ein glæra í pakkanum fjallaði í raun og veru um söluna. Annað var samanburður á virði banka og bla, bla, bla, en aðeins ein glæra fjallaði um þessa svokölluðu tilboðsleið, muninn á henni og þessu frumútboði.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, af því að talað er um það í skýrslunni: Fengu nefndirnar nægjanlega kynningu til að geta sent frá sér álit um það sem þetta væntanlega var, sölu á milljarða eign ríkisins?