Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[16:31]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Svarið er nei og það er bara mjög skýrt í skýrslu ríkisendurskoðanda að þingnefndir fengu ekki fullnægjandi upplýsingar til að geta spurt gagnrýninna spurninga og verið fyllilega upplýstar um þá söluaðferð sem velja átti og skilið hvað í raun stæði til. Þetta er mjög skýrt af lestri skýrslunnar og kom líka mjög skýrt fram í máli ríkisendurskoðanda fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í gær.

Síðan hefur því verið fleygt fram hér og annars staðar að í raun hefðu þingnefndirnar átt að taka fyrir það að smærri aðilar mættu taka þátt í þessu og þingnefndirnar hefðu átt að benda á hitt og þetta. Í fyrsta lagi er bæði búið að sýna fram á að ráðherra hafi ekki verið fyllilega upplýstur um hvað gengi eiginlega á, og líka að þingnefndirnar hafi alls ekki verið nógu vel upplýstar, hvorki af ráðherra né Bankasýslunni. Það er auðvitað grafalvarlegt mál. Mér finnst frekar lítið gert úr því að upplýsingagjöfin til þingsins hafi verið þetta léleg og að ríkisendurskoðandi komist í raun að þeirri niðurstöðu að upplýsingarnar hafi verið ófullnægjandi til að Alþingi gæti tekið upplýsta afstöðu til sölunnar sem er, eins og við vitum, lykilþáttur í þessu ferli öllu saman.

Það er auðvitað miður að ekkert regluverk sé í kringum það að það hafi einhverjar afleiðingar í för með sér að villa um fyrir þinginu. Ef svo væri tæki framkvæmdarvaldið mögulega alvarlegar það hlutverk sitt að upplýsa þingið.