Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[16:40]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég geri mér alveg grein fyrir því að hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir hefur orðið fyrir töluvert miklum vonbrigðum með skýrslu ríkisendurskoðanda af því að hún er ekki í takt við þá drauma sem hún ól með sér. Skýrslan rennir ekki stoðum undir þau gífuryrði sem féllu hér úr munni hv. þingmanns á síðastliðnu vori.

En haldið skal áfram, frú forseti, að dylgja um það að hæstv. fjármálaráðherra hafi selt föður sínum Íslandsbanka, selt honum Íslandsbanka, eins og hv. þingmaður kemst að orði. Spurningin er: Hversu lágt ætla menn að leggjast? Nú er það ljóst að í lögum um Bankasýsluna er hlutverk Bankasýslunnar að meta þau tilboð sem hafa borist. Hæstv. fjármálaráðherra hafði ekki upplýsingar um að faðir hans væri hugsanlega að gera tilboð í lítinn hlut, ekki bankann allan eins og hv. þingmaður vill telja fólki trú um heldur lítinn hlut í þessu almenna útboði, tilboðsútboði. Hann vissi ekki af því og ég ætla að spyrja hv. þingmann: Telur hv. þingmaður að hér eftir verði nauðsynlegt, þegar seldar eru ríkiseignir, að fjármálaráðherra fari sérstaklega yfir og handvelji þá sem honum eru þóknanlegir, að þeir fái að kaupa hluti í þeim ríkisfyrirtækjum sem kunna að vera seld á komandi árum? (Forseti hringir.) Ég dreg nákvæmlega þann lærdóm þegar ég hlusta á hv. þingmann. Hún telur rétt og eðlilegt að stjórnmálamenn hafi afskipti af því og handvelji þá sem kaupa ríkiseignir.

(Forseti (ÁLÞ): Forseti vill biðja þingmenn um að virða tímann.)