Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[16:44]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tók eftir því að hv. þingmaður svaraði ekki þeirri spurningu sem ég beindi að honum: Er þingmaðurinn að leggja það til að fjármálaráðherra hverju sinni handvelji, fari yfir lista yfir tilboðsgjafa þegar kemur að sölu ríkiseigna og velji þá úr sem honum eru þóknanlegir eða ekki? Vegna þess að það er það sem ég heyri þegar ég hlusta á hv. þingmann. En svo vil ég líka taka fram vegna ræðu hv. þingmanns hér áðan að það er alveg skýrt í lögum um ríkisendurskoðanda hvert hans hlutverk er. Þar segir m.a. í 3. gr.:

„Ríkisendurskoðandi skal upplýsa Alþingi og stjórnvöld um málefni sem varða rekstur og fjárreiður ríkisins, leiða í ljós frávik frá lögum og reglum á því sviði og gera tillögur að úrbótum, bættri stjórnsýslu, skýrari ábyrgð“ o.s.frv.

Þessi stjórnsýsluúttekt sem við erum að ræða hér er gerð á grunni þessarar 3. gr. laga um ríkisendurskoðanda. (Gripið fram í: Segir þú.) Hún er gerð á grunni þessara lagagreina og ég vona að enginn hér í þingsal ætli að dylgja um það að ríkisendurskoðandi hafi ekki farið að lögum um það hlutverk sem honum er falið. Það kemur í ljós og líka í viðtölum við ríkisendurskoðanda að það eru engar vísbendingar um að lög hafi verið brotin við þetta útboðsferli. Það er að vísu bent á að það sé verið að kanna aðra hliðar á málinu sem snýr að eftirlitsskyldum aðilum og er ekki á borði fjármálaráðherra. (Forseti hringir.) Engu að síður er haldið áfram að dylgja um það að lög hafi verið brotin. Þess sér ekki stað í skýrslunni og ekki í þeim ummælum sem ríkisendurskoðandi hefur viðhaft opinberlega. (Forseti hringir.) En samt skal haldið áfram dylgjum og stóryrðum og aðdróttunum. (Gripið fram í.)