Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[16:49]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Í stjórnarsáttmála Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs kemur fram að á kjörtímabilinu muni ríkissjóður halda áfram að draga úr eignarhaldi á fjármálakerfinu og nýta ábatann til uppbyggingar innviða. Við sem stöndum hér í þessum sal getum örugglega verið sammála um mikilvægi þess að byggja upp innviði. Fyrir þau sem þurfa upprifjun á sögunni þá eignaðist ríkið öll hlutabréf í bankanum sem hluta af stöðugleikaframlagi Glitnis við uppgjör þrotabúsins. Með því varð ríkið eigandi að tveimur af þeim þremur stóru viðskiptabönkum sem starfa hér á landi. Allt frá árinu 2015 hafa verið uppi áform um að selja hlut ríkisins í Íslandsbanka, enda hefur það ekki verið stefna ríkisins að reka þessa banka til framtíðar. Það sem þarf að hafa hugfast er að Bankasýslu ríkisins er falið samkvæmt lögum að annast það ferli sem þarf að fara fram til að selja hlut í bankanum og við treystum Bankasýslunni fyrir hlutverki sínu. Fyrirkomulag þessarar sölu og ábyrgðarskipting byggist á lögum um sölumeðferð eignarhluta í fjármálafyrirtækjum. Þau lög voru sett í tíð vinstri stjórnarinnar og fyrir þeim mælti þáverandi fjármálaráðherra, Oddný Harðardóttir. Við erum öll sammála um að við höfum ætlað að fylgja þeim lögum og því ferli.

Staðan er sú að búið er að fara í tvö útboðsferli og báðar sölurnar hafa verið ríkissjóði almennt hagfelldar. Ríkissjóður hefur selt hluti í bankanum fyrir 108 milljarða en á enn eftir 42,5% hlut. Fyrir þessa upphæð má standa fyrir ýmsum framkvæmdum sem beðið er eftir víðs vegar í samfélaginu. Má þar nefna nýjan Landspítala og hjúkrunarheimili ásamt áframhaldandi uppbyggingu samgönguinnviða. Fyrra útboðið var svokallað almennt útboð. Þar fór 35% hlutur í sölu í almennu útboði og gekk það útboð almennt vel fyrir sig. Líkt og kemur fram í skýrslunni sem við ræðum hér í dag var seinna tilboðið lokað tilboðsfyrirkomulag eingöngu fyrir fagfjárfesta. Hér er um að ræða fyrirkomulag sem er vel þekkt erlendis enda dregur Ríkisendurskoðun ekki þessa aðferð í efa í skýrslunni. Þetta fyrirkomulag er minna þekkt hérlendis en hefur þó verið notað við sölu á eignarhluta í Arion banka.

Nú erum við hér að ræða skýrslu ríkisendurskoðanda og staðreyndin er sú að framkvæmd útboðsins er gölluð. Það kemur fram í skýrslunni og er vel staðfest þar. Við sáum strax í vor vísbendingar um að framkvæmdin hefði verið gölluð og eðlilega vakti það upp fjölda spurninga. Stjórnvöld lögðu áherslu á það allan tímann að leitað yrði til okkar færustu sérfræðinga og það var sannarlega gert. Þá hafa þingnefndir samkvæmt lögum ákveðið hlutverk í undirbúningi söluferlis og fengu nefndirnar vegna umfangsins framlengda fresti til að skila umsögnum vegna sölunnar. Við þessa sölu komu ekki fram efnislegar athugasemdir um tilboðsfyrirkomulagið sem slíkt eða leiðbeiningar til ráðherra um sölumeðferðina þrátt fyrir að nefndirnar fengju til sín sérfróða aðila til að greina kosti og galla sölufyrirkomulagsins. Þau sem sitja hér í stjórnarandstöðu og gagnrýna ferlið vita þetta enda sitja fulltrúar allra flokka í þessum nefndum.

En við erum samt á þessum stað í dag og við erum hérna með góða skýrslu sem varpar ljósi á mikilvæga þætti málsins. Skýrsla ríkisendurskoðanda sem skilaði sér til okkar í gær var ítarleg og góð. Hún er til komin vegna þess að fjármála- og efnahagsráðuneytið óskaði eftir því við Ríkisendurskoðun að embættið gerði stjórnsýsluúttekt á því hvort sala ríkisins á þeim hlut í Íslandsbanka sem seldur var 22. mars síðastliðinn hafi samrýmst lögum og góðum stjórnsýsluháttum.

Ég vil vitna í ríkisendurskoðanda sem lét hafa eftir sér á mbl.is í dag að ef Ríkisendurskoðun hefði orðið þess áskynja að lög hefðu verið brotin þegar þessi hlutur ríkisins í Íslandsbanka var seldur hefði stofnunin vakið athygli á því. Hann bætir við að það sé ekki þar með sagt að þó að hlutir hafi misfarist séu þeir ólöglegir. Ríkisendurskoðandi bendir einnig á eftirfarandi í skýrslunni og ég vitna hér beint, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir reynslu og þekkingu starfsmanna og stjórnar Bankasýslunnar á sviði umsýslu og sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum bjó stofnunin ekki yfir reynslu af tilboðsfyrirkomulagi í aðdraganda sölunnar. Stofnunin var í söluferlinu öllu afar háð utanaðkomandi ráðgjöf og þekkingu.“

Þá segir einnig í skýrslunni:

„Í minnisblaði Bankasýslunnar kom fram um tilboðsfyrirkomulag að slík sala fari fram með lokuðu útboði til hæfra fjárfesta. Bankasýslan taldi því að söluaðferðin væri ekki að fullu í anda meginreglna laga nr. 155/2012 hvað varðar opið söluferli og gagnsæi. Ríkisendurskoðun bendir á að það söluferli sem viðhaft var við söluna 22. mars er almennt kallað opið söluferli á fjármálamarkaði. Í lokuðu útboði er aðeins tilteknum aðilum gefinn kostur á að gera tilboð og þeir einir fá boð um að gera það. Svo var ekki í söluferli Íslandsbanka þar sem öllum fjárfestum sem töldust til hæfra fjárfesta var heimil þátttaka.“

Þrátt fyrir ýmsa annmarka á söluferlinu dregur Ríkisendurskoðun ekki í efa að fjárhagsleg niðurstaða söluferlisins á hlut ríkissjóðs í Íslandsbanka hafi verið ríkissjóði almennt hagfelld. Það á einnig við um þróun á gengi í bankanum á eftirmarkaði í kjölfar sölunnar. Þó er ekki hægt að fullyrða að salan hafi verið ríkissjóði eins hagkvæm og vera mátti. Varðandi hagkvæmni sölunnar er ekki hægt að segja að ef salan færi fram í dag fengjum við mun lægra verð eða hærra. Þetta er víst allt spurning um tímapunkta og því aðeins hægt að velta því fyrir sér hvað sé besta mögulega sala. Það er þó ein staðreynd sem bent er á í skýrslunni sem er verulega sorgleg. Það er skjalið sem gaf rangar forsendur í rauneftirspurn. Í skýrslunni kemur fram að skjal sem notað var sem grunngagn um rauneftirspurn og leiðbeinandi lokaverð reyndist uppsett með röngum forsendum. Það leiddi til þess að excel-töflureiknirinn nam það ekki sem tölulegar upplýsingar. Já, excel er nákvæmur. Ef nemandi í prófi í viðskiptafræði skilaði verkefni með slíkri villu fengi viðkomandi 0 fyrir dæmið. Það er ljóst. En eftirfarandi prófraun innihélt kannski fleiri dæmi. Og hér erum við að tala um okkar hæfustu sérfræðinga.

Virðulegur forseti. Þegar ríkisendurskoðandi gekk eftir svörum um fyrrgreinda villu voru svör Bankasýslunnar á þann veg að þessi villa hefði ekki komið fram áður en endanlegt leiðbeinandi lokaverð var ákveðið en skjalið með villunni skilaði sér samt inn sem fylgigagn til Ríkisendurskoðunar.

Virðulegi forseti. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur nú fengið kynningu á skýrslunni frá Ríkisendurskoðun og nú hefst vinna nefndarinnar við að kynna sér málið, kalla til aðila, taka umræðuna og skila frá sér áliti um skýrsluna. Hv. formaður nefndarinnar fór vel yfir hvaða hlutverk nefndin hefur í þessu sambandi og tek ég undir hennar orð. En sú umræða sem nú fer fram hér í dag hefði í raun átt að fara fram eftir vinnu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Það var ótrúleg upplifun að verða vitni að þeim leka sem varð á skýrslunni til fjölmiðla. Sem nefndarmaður í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd var það mjög slæm upplifun að verða vitni að þeirri óvirðingu sem sá eða sú sem lak skýrslunni sýndi Alþingi. Við getum öll og eigum öll að hafa skoðun á þessu máli en berum virðingu fyrir trúnaði sem okkur ber að halda. Ég ber samt fullt traust til nefndarinnar að hefja þessa vinnu og ég óska henni og okkur góðs í þeirri vinnu og ég treysti öllum nefndarmönnum til að vinna af heilindum að henni. Ég ber líka traust til okkar eftirlitsstofnana. Ríkisendurskoðun hefur hér skilað góðu plaggi þar sem farið er vel yfir málin. Þau sem út af standa hvað varðar söluráðgjafana eru nú í skoðun hjá Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands. Síðan eigum við eftir að fara í þessa vinnu í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og ég vonast til að við verðum betur upplýstari og betri í umræðunni eftir að henni er lokið.

Virðulegi forseti. Við bíðum niðurstöðu þessa og tel ég að þær spurningar sem við höfum núna verði svarað eftir vinnu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og eins líka eftir að vinnu Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands er lokið og ég vona að myndin verði skýrari þegar við förum heim fyrir jólin eða sem fyrst. — Ég hef lokið máli mínu.