Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[17:01]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður sagði orðrétt að hún teldi að ráðherra hefði ekki haft ríka eftirlitsskyldu með Bankasýslunni sem slíkri. Hér erum við komin í svolítil vandræði. Það sem ég var að lesa upp í ræðu minni eru beinar tilvitnanir í lýsingu ríkisendurskoðanda á ábyrgð ráðherra þegar kemur að svona söluferli. Ég held að við séum í vandræðum hér í þessum sal ef jafnvel stjórnarliðar sættast ekki við bara grunnforsendurnar sem lagt er upp með í skýrslu Ríkisendurskoðunar um það hvert hlutverk Bankasýslunnar sé og hvert hlutverk fjármálaráðherra sé. Það er alveg skýrt að Bankasýslan er undirstofnun og ráðherra ber að hafa eftirlit með sölumeðferðinni á öllum stigum ferlisins, bæði í upphafi og undir lokin þegar hann tekur sína ákvörðun. Þá á hann að hafa sannreynt, þá á hann að hafa aflað upplýsinga til þess einmitt að geta gengið úr skugga um að markmið (Forseti hringir.) laganna náist og forsendurnar sem lagt var upp með í hans eigin greinargerð sem hann leggur sjálfur fyrir Alþingi séu uppfylltar.