Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[17:04]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Forseti. Mig langar til að spyrja hv. þingmann út í viðbrögð ríkisstjórnarflokkanna við þessari skýrslu. Í dag tjáði varaformaður Framsóknarflokksins sig, bankamálaráðherra, sem er að vísu ekki hér í þessari umræðu í dag, um skýrsluna; var ánægð með hana en ítrekaði það sem hún sagði strax um páskana, að hún hefði talað fyrir almennu útboði, hún hefði ekki viljað fara þessa tilboðsleið. Þungamiðjan og kjarnaatriðið í umfjöllun Ríkisendurskoðunar er þessi framkvæmd á sölunni, aðferðafræðin við hana, þessi tilboðsleið. Mig langaði bara til að spyrja hv. þingmann út í það hvort einhugur hafi verið í þingflokki Framsóknarflokksins um þá leið sem farin var í ljósi þess að hér er varaformaður flokksins að tjá sig, bankamálaráðherrann, sem hefur lýst því yfir og gerir það aftur í dag að hún hafi tjáð sig með þeim hætti í ráðherranefnd um efnahagsmál að hún hafi varað við þessari lokuðu leið.