Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[17:06]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ég lít svo á að við séum að ræða sölu á Íslandsbanka og framkvæmdina alla. Auðvitað er veigamikið atriði í þeirri umfjöllun hvort þrír ráðherrar, sem höfðu þetta verkefni með höndum, gengu ekki í takt, voru ekki sammála. Varaformaður Framsóknarflokksins er aftur í dag að halda því til haga að forsætisráðherra hafi farið þá leið sem fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins lagði til en að fulltrúi Framsóknar í þeirri nefnd hafi verið annarrar skoðunar. Hún sagði á þessum tíma í fjölmiðlum, með leyfi forseta:

„Önnur leið var hins vegar valin og því miður er fátt sem kemur á óvart í þessu máli og hver útkoman varð.“

Ég var því í raun og sann forvitin um það hvaða umræður hafi þá verið í þingflokki Framsóknarflokksins um það hvaða leið skyldi fara í þessum efnum.