Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[17:11]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Já, ég er vissulega að vísa í að þarna er faðir fjármálaráðherra einn af kaupendum. Fjármálaráðherra ber í rauninni ábyrgð á því að fara og selja hluti í þessum banka. Það er Bankasýslan sem fer yfir tilboðin, skrifar rökstutt mat, alveg nákvæmlega eins og með umsækjendur um starf, og skilar rökstuddu mati til ráðherra sem tekur ákvörðun um það hvort eigi að selja, hversu mikið eigi að selja o.s.frv. Ef faðir hans eða sonur eru meðal umsækjenda um kaup í hlut á ríkisbanka er ráðherra þá ekki, nákvæmlega eins og þegar umsókn um starf er að ræða, vanhæfur? Um þetta er ekkert fjallað í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Það er bara farið yfir, eins og kemur hér fram, það sem er á verksviði Ríkisendurskoðunar. Það er frekar augljóst í skýrslunni ef maður les hana. En það vantar algjörlega að fjalla um hlut ráðherra og hæfi hans til að taka þessa ákvörðun.