Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[17:13]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna hér áðan. Mig langaði aðeins til að fara yfir eitt atriði sem mér finnst vera gríðarlega alvarlegt í þessari skýrslu, þessari annars fínu skýrslu Ríkisendurskoðunar. Það er þetta orðalag í niðurstöðukafla:

„Hugtakanotkun og upplýsingagjöf í þeim gögnum sem Bankasýslan og fjármála- og efnahagsráðuneyti lögðu fyrir Alþingi voru ekki til þess fallin að draga upp skýra mynd af tilhögun söluferlisins.“

Þetta þýðir með öðrum orðum að upplýsingagjöfin til Alþingis, til þingnefndanna tveggja, gaf okkur ekki rétta mynd af því sem væri að fara að gerast. Í mínum skilningi á lögum, eins og maður les þau, er röng eða villandi upplýsingagjöf til þings alveg á mörkum þess að teljast lögbrot.

Ég ætla því að spyrja hv. þingmann: Hvað finnst hv. þingmanni um þessa setningu og þetta inntak í skýrslunni? Er það ekki grafalvarlegt ef þingnefndirnar, (Forseti hringir.) sem eiga að taka málið til umfjöllunar hér í undirbúningnum, fá villandi upplýsingar og byggja þá mögulega álit og umsögn á því?