Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[17:20]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég verð að játa að fjarvistir ráðherra í þessum sal eru svo tíðar að ég hafði satt best að segja ekki leitt hugann að þessu fyrr en hv. þm. Andrés Ingi Jónsson nefndi þetta. Ég spurði þingmann Framsóknarflokksins út í afstöðu varaformanns Framsóknar og eins þriggja ráðherra í ráðherranefnd um efnahagsmál sem tók allar stærstu ákvarðanirnar um hvernig sölunni og söluákvörðununum skyldi hagað. Það gerði ég vegna þess að varaformaður Framsóknarflokksins og bankamálaráðherra í þessari ríkisstjórn hefur ekki verið í þessari umræðu. Hún tjáir sig við fjölmiðla en hún er ekki hér í þessum sal. Mér finnst satt best að segja að þegar ríkisendurskoðandi er búinn að vinna að úttekt á máli mánuðum saman varðandi sölu ríkiseignar að verðmæti 52,7 milljarða kr. þá ættu forsætisráðherra, fjármálaráðherra og ráðherra viðskiptamála að sýna almenningi og Alþingi þá virðingu að taka þátt í umræðunni.