Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[17:23]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek auðvitað undir að það væri mjög gott að fá hæstv. bankamálaráðherra hingað inn til þess að gera ítarlegri grein fyrir því sem gerðist í ráðherranefndinni í aðdraganda sölunnar. Mér fannst mjög áhugavert að heyra hv. þm. Höllu Signýju Kristjánsdóttur nefna hér áðan að þingflokkur Framsóknarflokksins hefði í sjálfu sér ekki gert athugasemd við það ferli sem farið var eftir að varaformaður flokksins hafði lýst þess háttar andstöðu, hún hafi séð það fyrir að þetta myndi enda með ósköpum og fyrirkomulagið myndi leiða til klúðurs. Mér finnst mjög áhugavert að sá eini sem talaði með þessum hætti innan Framsóknarflokksins sé einungis sá sem hér er lýst sem mesta sérfræðingi flokksins í bankamálum, sem er auðvitað hæstv. bankamálaráðherrann. Það væri mjög upplýsandi að fá afstöðu ráðherrans til þessa alls og sömuleiðis hæstv. forsætisráðherra sem einnig tók þátt í þessari umræðu í aðdragandanum.