Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[17:29]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Í sjálfu sér geri ég ekki athugasemd við að þingmenn sakni annarra þingmanna eða eftir atvikum ráðherra úr þingsal. Á móti kemur að menn hafa bara frítt spil. Hér hafa menn allan daginn og geta sagt allt sem þeim finnst en sjá ekki ástæðu til þess að fagna því að geta raðað sér allir á mælendaskrána og átt daginn hér á þingi. Það sem ég held að sé að koma á daginn er að það er svo lítið innihald. Það er svo lítið efnislegt sem menn hafa að segja að þeir vilja frekar eyða tímanum hér í fundarstjórn forseta. Ég skal bara taka þátt í því. Við skulum ræða hérna um fundarstjórn forseta í allan dag í stað þess að ræða um skýrsluna sem menn eru smám saman að átta sig á að geymir engar fullyrðingar á borð við þær sem hv. þingmenn virðast tína upp á tómum síðum skýrslunnar um þau atriði. Þetta er óskaplega dapurlegt og hálfniðurlægjandi fyrir stjórnarandstöðuna. En ef menn vilja suða í forseta yfir fundarstjórn þá fá menn bara að gera það. Það er í fínu lagi.