Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[17:31]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Hæstv. fjármálaráðherra kemur hingað upp og talar um hvað honum finnist vera sorglegt, dapurlegt og allt þetta hvernig við, aumingja stjórnarandstaðan, séum að haga okkur á einhvern hátt sem hæstv. fjármálaráðherra þóknast ekki.

Mig langar að segja að mér finnst sorglegt og dapurlegt hversu litla virðingu fulltrúi framkvæmdarvaldsins í þessum þingsal, sem tekur þátt í umræðunni með okkur, ber fyrir þinginu og stjórnarandstöðunni sérstaklega. Við höfum ekki ofboðslega mörg verkfæri í þessum sal til að koma sjónarmiðum okkar á framfæri og það er bara sjálfsagt að við fáum umræðu um þessa skýrslu. Aftur á móti erum við búin að biðja um rannsóknarnefnd til að kanna málið ofan í kjölinn. Það kemur bara ekki til greina því að það er um of mikið beðið að fá þá rannsókn sem þingið og stjórnarandstaðan bað um. Nei, rannsóknin á að fara fram á forsendum fjármálaráðherra. Þetta þykir mér sorglegt. (Forseti hringir.) Mér þykir hrokinn sem kemur frá fjármálaráðherra sorglegur og mér þykir sjálfsagt að við komum upp í fundarstjórn og bendum á að hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra (Forseti hringir.) vill tala við fjölmiðla í allan dag um hennar sjónarmið í þessu máli en kemur ekki fyrir þingið. Það er sjálfsagt að við komum hér upp og spyrjum: Af hverju er hún ekki hér? (Gripið fram í.)