Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[17:55]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í viðtali við Morgunblaðið í dag, mbl.is, segir ríkisendurskoðandi, með leyfi forseta:

„Hefði Ríkisendurskoðun orðið þess áskynja að lög hefðu verið brotin þegar að 22,5% hlutur ríkisins í Íslandsbanka var seldur í mars þá hefði stofnunin vakið athygli á því …“

En það var ekki gert. Við hljótum að geta verið sammála um einhver svona grundvallaratriði, eða ætlum við bara að standa í einhverjum drullupolli og hossa okkur þar? Það verða að vera einhver prinsipp í þessari umræðu. Við fengum skýrslu. Það var unnið í hálft ár við að meta hvort lög hafi verið brotin, þau lög sem gilda um söluna. Það er engin slík niðurstaða hér en við getum ekki einu sinni byrjað umræðuna þar. Það er þetta sem ég vil vekja athygli á og lýsa áhyggjum af. Síðan var það allan tímann fyrirséð að stjórnarandstaðan myndi vilja kalla eftir rannsóknarnefnd, eins og ljóst var strax í vor. Það hefur aldrei verið vandamál fyrir mig að axla pólitíska ábyrgð. (Forseti hringir.) Ég hef gengið til kosninga, bæði innan flokks og til þingkosninga, og svo hvílir nú stjórnarsamstarf á gagnkvæmu trausti o.s.frv. Svo getur (Forseti hringir.) þingið alltaf tekið ákvörðun um að vísa ráðherra frá þannig að það er bara auðvelt að láta reyna á hina pólitísku ábyrgð ef menn vilja.