Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[17:56]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort maður eigi að vera elta hæstv. fjármálaráðherrann í þessari ódýru rökfræðitaktík sem ástunduð er hér í ræðustól. Ég hef oft gengið til kosninga — hefur hæstv. fjármálaráðherra einhvern tímann gengið til kosninga og sagt: Já, ég ber fulla ábyrgð á því að salan á 50 milljarða hlut í Íslandsbanka gekk mjög illa fyrir sig, að Ríkisendurskoðun tiltók fjölmörg atriði sem ég ber ábyrgð á. Hefur hann einhvern tímann gert það? Nei. Það er það sem við erum að tala um. Ríkisendurskoðandi er nýbúinn að segja í viðtali að það sé ekki hans að skera úr um lagatúlkun. Það kemur líka fram og kom fram á fundinum í gær að hann fer varlega í slíkar túlkanir af því að aðrir aðilar eru betur til þess bærir, nefndi m.a. umboðsmann Alþingis í því samhengi í gær. Með þessu er ég ekki að halda því fram að lög hafi verið brotin. Mér finnst ekkert að ég eigi að standa hér í ræðustól og slá því föstu. Mér finnst hins vegar að ég eigi að slá því föstu hér í þessum ræðustól að það er m.a. hægt að leita svara við því hvar hin pólitíska ábyrgð liggur og hvar ábyrgðin liggur á öllum sviðum með því að stofna rannsóknarnefnd Alþingis. (Forseti hringir.) Það getur ekki verið annað en niðurstaðan. Það er allt sem við erum að biðja um. Það væri t.d. hægt að axla pólitísku ábyrgðina (Forseti hringir.) þannig og ganga með þá niðurstöðu á bakinu inn í kosningar.