Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[17:58]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir efnismikla og góða ræðu þar sem er fullt af tilvitnunum í skýrsluna og samhengi þess á milli. Það er gott að fá efnismikla umræðu en ekki drullupollaumræðu eins og sumir aðrir hafa verið að uppnefna umræðuna hérna. Hv. þingmaður byrjaði ræðu sína á því að fjalla um að það hefði átt að velta við öllum steinum. Það var umræðan hérna í vor. Frá mínum bæjardyrum séð, síðan í vor, þá er niðurstaða skýrslunnar nákvæmlega eins og ég bjóst við, alveg hárnákvæmlega. Ríkisendurskoðun fer yfir þá hluta ferlisins sem koma Ríkisendurskoðun við samkvæmt starfssviði Ríkisendurskoðunar, finnur þar fullt, fullt, fullt af mjög ámælisverðum atriðum og skoðar ekki t.d. þátt ráðherra. Það var viðurkennt af hv. þm. Höllu Signýju Kristjánsdóttur hérna í andsvörum áðan. Ef við skoðum skýrsluna þá finnum við ekki umfjöllun um hæfi ráðherra til að taka þá ákvörðun að selja t.d. föður sínum hlut í Íslandsbanka.

Mig langar til þess að velta því upp með hv. þingmanni: Erum við ekki á nákvæmlega sama stað og við vöruðum við í stjórnarandstöðunni í vor, að þegar skýrsla Ríkisendurskoðunar kæmi loksins þá kæmi fram nákvæmlega það sem við bjuggumst við? Þetta er niðurstaðan sem við vissum að yrði miðað við allar þær vísbendingar sem lágu fyrir á þeim tíma. Allar þær viðvaranir og allar þær vísbendingar um brotalamir er Ríkisendurskoðun að staðfesta (Forseti hringir.) og allt það sem vantar upp á vantar einmitt líka (Forseti hringir.) enn þá, eins og við sögðum, af því að við vissum það út af forsögunni (Forseti hringir.) um skoðanir ríkisendurskoðanda á bankasölu.

(Forseti (ÁLÞ): Forseti vill minna þingmenn á að gæta að tíma.)