Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[18:03]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Í vor vorum við með rökstuddan grun um að það hefði allt farið úrskeiðis í þessu ferli. Við kölluðum eftir rannsóknarskýrslu, m.a. vegna þess einmitt að það náði yfir allt ferlið eins og það lagði sig. Í dag, af því að við fengum skýrslu frá Ríkisendurskoðun, þá erum við komin með meira en rökstuddan grun, við erum komin með gagnagreiningu á hluta ferlisins sem staðfestir einfaldlega að þessi rökstuddi grunur er meira en — er mögulega lögbrot. Við eigum eftir að taka næsta skref í því. En við eigum eftir að taka aukaskref hvað varðar rökstuddan grun um þátt ráðherra. Hv. þingmaður kom inn á það hérna áðan að ráðherra gæti axlað pólitíska ábyrgð með því að skipa rannsóknarnefnd. En þá velti ég líka fyrir mér hvernig hæstv. ráðherra getur setið sem ráðherra málaflokksins á meðan rannsóknarnefnd er að störfum. Ég sé ekki möguleika á því og ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður telji það vera eðlilegt að ráðherra sitji á meðan rannsóknarnefnd er að rannsaka störf hans.