Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[18:04]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanninum fyrir þetta innlegg og fyrirspurnina. Ég hef svolítið gætt mín á því, af því að ég er að biðja um það að rannsóknarnefnd skoði málið, að ákveða það ekki fyrir fram nákvæmlega hver hin pólitíska ábyrgð er. Mér finnst það einfaldlega ekki fara saman. Ég er t.d. ekki til í að taka undir kröfu um það að fjármálaráðherra segi af sér á sama tíma og ég er að biðja um að embættisfærsla hans sé rannsökuð betur. Mér finnst það ekki alveg fara saman. (Gripið fram í.) — Nei, nei. Nú er ég bara að vísa í umræðu eins og hún hefur verið í samfélaginu, ég var ekkert sérstaklega að vísa til hv. þingmanns í því samhengi, svo því sé haldið til haga. Ég verð að játa það að ég hef ekki leitt hugann sérstaklega að því hvort ráðherra geti setið á meðan svona rannsóknarnefnd er að störfum þannig að ég treysti mér ekki til að fella neinn dóm um það að óathuguðu máli. En það er væntanlega eitthvað sem þyrfti að koma í ljós og við þurfum að taka tillit til, vonandi, þegar rannsóknarnefndin verður sett á laggirnar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)