Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[18:08]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir. Það er rétt, ég sat þennan fund. Ríkisendurskoðandi var spurður um margt og mér fannst svör hans við mörgu mjög traustvekjandi og árétta það að ég ber fullt traust til ríkisendurskoðanda og finnst skýrslan, auðvitað með öllum sínum eðlilegu lagalegu takmörkunum, býsna vel unnin.

Mig langar t.d. að benda á það sem Guðmundur B. Helgason, ríkisendurskoðandi, segir í nýju viðtali á Vísi af því að vísað hefur verið í greinargerðina og mikið talað um lagahlutann í þessu öllu. Ríkisendurskoðandi segir skýrsluhöfunda ekki vera að benda á að þarna hafi verið farið á svig við lög, það sé ekki hlutverk stofnunarinnar að skera úr um ágreining um lagatúlkun. Hann segir hins vegar að skýrslan sýni fram á nægilega mikla annmarka í ferlinu, til að mynda hafi greinargerð ráðherra um söluna ekki verið nógu skýr.

Hvað erum við með í höndunum þegar greinargerð ráðherra um söluna er ekki nógu skýr? Hvað erum við með í höndunum þegar við hugsum til orða ríkisendurskoðanda um að lögin séu ákaflega matskennd? Hvað erum við með í höndunum þegar upplýsingagjöf til þingnefnda er með þeim hætti að hún varpi ekki nægilega góðu ljósi á söluferlið? Þá erum við auðvitað með brogaða mynd af öllu ferlinu, líka af því sem kemur nákvæmlega að þessu sem hv. þingmaður er að spyrja um. Ég man ekki nákvæmlega öll svör ríkisendurskoðanda á fundinum en ég hygg að þegar við lítum yfir umræðuna eins og hún hefur verið hér í dag þá sé það þannig að ríkisendurskoðandi hafi verið mjög skýr með að aðrir aðilar en hann sjálfur séu betur til þess fallnir að skera úr um einhverja stranga lagatúlkun. Alveg eins og hv. þingmaður sem hér spurði áðan hefur verið óþreytandi við að benda á þá hefur ríkisendurskoðandi haldið því fram að hann eigi að fara mjög varlega með slíkar ályktanir.