Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[18:10]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég hnaut einhvers staðar um það í skýrslunni að talað er um vangetu Bankasýslunnar til að sinna sínum störfum að einhverju leyti, að stofnunin sé fámenn og hafi ekki yfir að ráða djúpri þekkingu á því viðamikla verkefni sem henni var falið. Þess vegna var ég að spyrja út í hæstv. fjármálaráðherra og hvort það hafi eitthvað komið fram um hvaða bakland hann hafði til að meta upplýsingar sem hann fær símleiðis að kvöldi 22. mars, þegar tekin er ákvörðun um á hvaða verði eigi að selja, hvaða hluta eigi að selja og hvort búið sé að passa upp á að kaupendur uppfylli þau skilyrði sem lagt var upp með. (Forseti hringir.) Hvaða forsendur hafði hæstv. ráðherra, sem hefur alltaf lokasvarið í þessu ferli og ber á því ábyrgð? (Forseti hringir.) Var eitthvað fjallað um það á fundinum hvaða forsendur hann hafði til að taka slíkar ákvarðanir?