Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[18:11]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka aftur hv. þingmanni fyrir. Mig rekur ekki nákvæmlega minni til þess hvernig farið var með þetta tiltekna atriði. Það kom þó alla vega skýrt fram hjá ríkisendurskoðanda að bæði upplýsingagjöf til ráðherra í ferlinu og upplýsingagjöf frá ráðherra til annarra aðila hefði verið með þeim hætti að vert væri að gera athugasemdir við.

Þegar t.d. kemur að verðinu þá kom ég ekki inn á það í ræðu minni hér áðan en held að það megi slá því föstu að ríkisendurskoðandi hafi nánast verið að fullyrða það, án þess að fullyrða, að það hefði a.m.k. verið hægt að selja á genginu 120. Jafnframt hafi þær útskýringar sem komu á því af hverju það var ekki gert, og þá vísað í önnur markmið sölunnar, ekki endilega verið sérstaklega sannfærandi.