Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[18:13]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér um skýrslu ríkisendurskoðanda um söluna á hlut ríkisins í Landsbankanum. Mig langar í byrjun míns máls að rifja það upp að eftir bankahrun þá var Bankasýslu ríkisins komið á til að tryggja að sala ríkiseigna færi fram með faglegum hætti í kjölfar efnahagshrunsins. Það var því auðvitað af biturri reynslu sem ákveðið var að koma á annars konar ferli en verið hafði þar sem markmiðið var að tryggja armslengd á milli pólitískrar ákvarðanatöku vegna sölu ríkiseigna og framkvæmdarinnar á því. Með stofnuninni var lagður grunnur að því að eignarhald og sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fyrirtækjum sem höfðu kannski ekki venjulega verið í ríkisrekstri, væri fagleg. Mér finnst bara mikilvægt að muna að það var að fenginni biturri reynslu sem Bankasýslu ríkisins var komið á. Ég held að þeim stjórnmálamönnum sem þá voru að störfum í þessum sal og komu því ferli á hafi gengið gott til og hugsunin sé algerlega hárrétt, að vilja vera með stofnun sem hafi sérþekkingu og geti tekið faglegar ákvarðanir og að stjórnmálamenn séu ekki með beinni aðkomu að velja hverjum er verið að selja ríkiseignir.

Að öllu þessu sögðu þá er ég á þeirri skoðun að þetta hafi ekki tekist að fullu, enda værum við annars ekki að ræða það hvernig salan á hlutum í Íslandsbanka fór fram. Það komu strax upp ýmsar athugasemdir og rökstuddar vangaveltur um það að hlutir hefðu betur mátt fara. Ég held að það hafi verið full ástæða til þess að kafa ofan í þetta ferli. Það var hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sem kallaði eftir úttekt ríkisendurskoðanda á málinu. Mér fannst það vera fín ráðstöfun og treysti ríkisendurskoðanda til að standa að þeirri skoðun. Ég tel að með þeirri skýrslu sem við erum að ræða hérna í dag hafi komið í ljós að ríkisendurskoðandi, sem er jú óháður í sínum störfum, hafi vandað til verka enda er skýrslan ítarleg og svo sannarlega gagnrýnin á ferlið.

Fyrir það fyrsta langar mig að nefna það sem bent er á um að standa hefði mátt betur að kynningum fyrir þingnefndir. Ég held að við séum flest sammála um það. Ég veit satt að segja ekki nákvæmlega hvernig hin fullkomna kynning fyrir þingnefnd væri þar sem við öll sem hér inni störfum myndum í rauninni kunna það hvernig eigi að selja hlut í banka. En ég held engu að síður að okkur sé það öllum ljóst að þingmenn höfðu almennt óglögga mynd af því sem ætti að gera, jafnvel þó svo að bæði greinargerð frá hæstv. ráðherra lægi fyrir um söluferlið og ýmsar kynningar hefðu verið haldnar fyrir þingnefndir. Ég held að þetta sé atriði sem við eigum að taka til okkar og eigi að huga að.

Þá finnst mér einnig mikilvægt að hefja endurskoðun á því fyrirkomulagi sem var komið á þegar Bankasýslunni var komið á fót, þó svo, eins og ég sagði áðan, að ég telji að hugurinn þar á bak við og hugmyndin hafi verið góð og gerð af heilindum. Það hafi í ljósi reynslunnar komið í ljós annmarkar á því ferli, m.a. þeir að þegar á reyndi hafi ekki verið nægjanleg fagþekking á því hvernig ætti að standa að sölufyrirkomulagi líkt og farið var í með síðari sölunni á Íslandsbanka.

Mér finnst mikilvægt að við tökum þessa skýrslu og lítum hana alvarlegum augum því að úttekt ríkisendurskoðunar er góð og ítarleg. Það kom fram á fundi hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í gær, líkt og fram hefur komið hér í þessari umræðu og Þórunn Sveinbjarnardóttir, hv. þingmaður og formaður nefndarinnar, fór yfir í upphafi þessarar umræðu, að það var leitað eftir því við ríkisendurskoðanda hvort mætti vitna í orð hans á nefndarfundinum og við fengum vilyrði fyrir því. Ríkisendurskoðandi sagði að ef hann hefði orðið áskynja um að lögbrot hefðu átt sér stað hefði hann bent á það í skýrslu sinni. Þetta hefur ríkisendurskoðandi svo ítrekað í fjölmiðlum í dag. Mér finnst mikilvægt að þetta komi fram hér, að þetta sagði ríkisendurskoðandi fullum fetum.

Það eru atriði sem ríkisendurskoðandi skoðaði ekki í sinni skýrslu og eru til rannsóknar hjá Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands. Mér finnst mikilvægt að þegar þeirri rannsókn lýkur þá verði allt uppi á borðum og öllum opið að kynna sér það. Ég fagna því þess vegna mjög að Unnur Gunnarsdóttir, varaseðlabankastjóri Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands, segir í dag í fjölmiðlun að þau muni birta og gera opinberar niðurstöður sinnar rannsóknar. Reyndar segir hún líka að það verði ekki fyrr en í janúar. Ég held að við höfum öll verið að vonast eftir því að það yrði fyrr en það verður þá bara svo að vera. Við eigum von á þessu í janúar. Mér finnst skipta gríðarlega miklu máli að það hafi komið fram að þetta eigi að vera opinbert því að það skiptir okkur öll máli að við vitum það þá bara ef ekki hefur verið farið eftir reglum þegar kom að framkvæmdinni á sölunni á þessum bankahlut. Það er mikilvægt í sjálfu sér bara vegna þess að við viljum að allt sé gert á réttan hátt. En mér finnst það líka mikilvægt vegna þess að ég tel að fenginni þessari reynslu þá sé rétt að leggja Bankasýsluna niður og búa til nýtt fyrirkomulag um það hvernig eigi að selja eignarhluti í stofnunum í eigu ríkisins ef tekin er ákvörðun um það.

Ég vil segja það skýrt hér að mér finnst mikilvægt að það verði ekki farið í frekari bankasölu fyrr en þetta allt saman liggur fyrir og þegar nýtt regluverk liggur fyrir þar sem m.a. sé tekið mið af þeim ábendingum sem koma fram í skýrslu ríkisendurskoðanda um það hvað væri til bóta fyrir svona ferli, m.a. til þess að regluverkið sé skýrt og að ferlið sé opið og gegnsætt.

Mér finnst þessi umræða hér í dag mikilvæg. Hún er svolítið út og suður en það er allt í lagi. Þannig verður það auðvitað oft þegar margir hv. þingmenn taka þátt í umræðunni því að við höfum ólíka sýn á hlutina og það eru ólík atriði sem við drögum út úr þeim efnivið sem við erum með. En það sem mig langar að ítreka hér í lokin á ræðu minni er að mér finnst skýrsla ríkisendurskoðanda góð. Hún er sannast sagna ítarlegri og jafnvel gagnrýnni en ég hefði þorað að vona. En mér finnst það vera fagnaðarefni því það finnst mér sýna að ríkisendurskoðandi hafi vandað sig í sinni vinnu og sýnt það að hann er óháður í sínum störfum og er ekkert feiminn við að benda á óþægilega hluti, hluti sem skiptir máli að við sem hér í þessum sal tökum til okkar og lögum vegna þess að þó svo að kerfinu sé breytt og reynt sé að bæta verklag og verkferla út frá því sem við höfum lært af reynslunni er það þannig að maður kemst ekki alltaf á leiðarenda og það eru önnur vandamál sem geta komið upp, önnur atriði sem kemur í ljós að þyrftu að vera öðruvísi. Mér finnst það liggja fyrir hérna að það þarf annað fyrirkomulag en það sem við höfum núna og þess vegna finnst mér hafa verið stigin rétt skref með því að segja að Bankasýslan verði lögð niður. En nú þurfum við að tryggja það að við lærum af þessari vinnu og við búum til regluverk sem heldur og er betra en það sem við höfum núna.