Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[18:28]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að spyrja hv. þingmann um hvernig hún horfir á lögin sem hér voru sett um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum á sínum tíma. Þar á að leggja áherslu á hagkvæmni, opið söluferli, gagnsæi og hlutlægni. Í ljósi þess sem er fjallað um í þessari skýrslu þar sem ríkisendurskoðandi gerir athugasemd við hagkvæmnihlutann, gerir athugasemd við gagnsæis- og hlutlægnihlutann þá velti ég fyrir mér hver hennar skilningur er á ábyrgð á því að þessum lögum sé fylgt. Nú stendur það í þessum lögum að það er ráðherra sem tekur ákvörðun um hvort tilboð skuli samþykkt eða þeim hafnað. Til hvers er þessi liður laganna til staðar að hennar mati, þ.e. að það sé skrifað inn í lögin að það sé ráðherra sem taki ákvörðun um hvort tilboð skuli samþykkt eða hafnað?