Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[18:31]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég velti fyrir mér þessu samhengi, eins og ég sagði áðan, hvers vegna þessi liður er inni í lögunum, að ráðherra skuli samþykkja tilboð. Ber ráðherra að mati hv. þingmanns ekki ábyrgð á að sannreyna að það mat sem hann fær á hagkvæmni, jafnræði og þess háttar sé rétt? Gerir hún enga athugasemd við þær fullyrðingar sem eru í skýrslu ríkisendurskoðanda, að viðkomandi hæstv. ráðherra hefði fengið ófullnægjandi mat og hann hafi ekki óskað eftir frekari gögnum, að hann hafi að einhverju leyti tekið ákvörðun í blindni? Mig langar til að bæta við þetta mál í ljósi þess sem hv. þingmaður sagði: Er það að hennar mati ekki slæmt ef um gáleysi og vanhæfni er að ræða? Snúast þessi lög einfaldlega um ásetning? Þarf ekki að hafa í huga að mögulega sé vanhæfni til staðar?