Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[18:41]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Nú er ég hrædd um að hv. þingmaður sé að rugla saman tveimur lögum, annars vegar lögum um Bankasýsluna sem voru sett árið 2009 og síðan sérlögunum um hvernig á að fara að þegar selja á hlutina. Lögin sem samþykkt voru árið 2012 um söluna byrja á orðinu ráðherra. Þau segja til um hvað ráðherra er heimilt að gera. Í þessari skýrslu sem við erum að ræða hér tekur ríkisendurskoðandi sérstaklega fram að ráðherranum hafi borið að hafa eftirlit með söluferlinu og ganga úr skugga um að það hafi verið í samræmi við greinargerðina áður en hann tók ákvörðun um sölu. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún sé ekki sammála því að sá áfellisdómur sem kemur fram í skýrslu ríkisendurskoðanda á störf Bankasýslunnar eigi líka við um störf ráðherrans.