Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[18:44]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ætli fullkomin sala á hlut í banka, sem ég held að sé kannski ekki til, sé ekki þegar nálega engar spurningar vakna um ferlið, allir eru þokkalega sáttir við verðið sem fékkst og sjá enga annmarka á neinu. Ég veit ekki hvort hægt sé að ná því fram en þannig væri það í hinum fullkomna heimi. Strax við þessa sölu komu fram ýmsar ábendingar um vankanta. Til að mynda það að Fjármálaeftirlit Seðlabankans sé að rannsaka hluti er eitt atriði sem mér finnst skýrt dæmi um að hér hafi ekki tekist nógu vel til, (Forseti hringir.) jafnvel þótt það komi svo í ljós að allt hafi verið í lagi, bara það að þetta þurfi að rannsaka. (Forseti hringir.) Svo eru önnur atriði sem ég rakti í ræðu minni hér og kynningin til þingsins var einungis eitt af þeim atriðum.