Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[18:47]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek skýrslu ríkisendurskoðanda alvarlega og þess vegna, miðað við það sem ég fór yfir í ræðu minni, finnst mér stóra atriðið ekki vera nákvæmlega hvaða lýsingarorð ég notaði um ábendingar eða athugasemdir ríkisendurskoðanda. Þetta heitir ábendingar í skýrslunni. Sama hvort við köllum það athugasemdir eða ábendingar þá ber okkur að taka þær alvarlega vegna þess að það skiptir máli að við vöndum okkur þegar kemur að fjármunum ríkisins. Það skiptir líka máli að við vöndum okkur í umræðunni hér um hvað betur þurfi að fara og hvernig við eigum að ná því fram, og að við höldum okkur við aðalatriði máls.