Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[18:49]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. ríkisstjórn virðist ekki bera skynbragð á alvarleika þess máls sem við ræðum hér í dag. Skilaboðin frá hæstv. fjármálaráðherra eru þau að heilt yfir hafi Íslandsbankasalan gengið vel. Undir þetta taka liðsmenn hans og stuðningurinn heldur áfram að berast frá hæstv. forsætisráðherra við þetta ferli og við hæstv. fjármálaráðherra, hún virðist allt fyrir hann gera. Hann á þetta og má þetta. Hæstv. fjármálaráðherra slær sig til riddara ef vel gengur með sölu á banka en hafnar alfarið ábyrgð nú þegar ljóst er að þessi bankasala var eitt stórt klúður frá upphafi til enda. Hæstv. forsætisráðherra heldur áfram sinni uppgjöf í pólitík, heldur áfram að stunda forystu í þágu hæstv. fjármálaráðherra í stað þjóðar, nýtir sér talpunkta úr Valhöll, sem eru hér sameiginlegir, segir sem flest orð um sem minnst, vekur upp takmarkaðar tilfinningar, tekur helst enga afstöðu og hefur hreinlega ekkert að segja um risastór mál.

Þetta er ekki forysta, virðulegi forseti, þetta er eiginhagsmunasemi og flótti. Pólitík VG hefur breyst í verkefnastjórn utan um Sjálfstæðisflokkinn sem hefur frítt spil í þessari ríkisstjórn. Það er svo miklu meira undir í þessu máli en einhverjir ráðherrastólar eða laskað traust til einstakra einstaklinga. Traust til stjórnmálanna hefur varla jafnað sig á þeim 14 árum sem liðin eru frá bankakrísunni, traust til fjármálakerfisins er enn lágt. Samþykkt voru sérlög um sölu ríkisins á eignarhluta í fjármálafyrirtækjum sérstaklega til að fyrirbyggja þá stöðu sem nú er komin upp til að auka traust, til að skapa þá tilfinningu meðal almennings að tími fúsks, vanhæfni og klíkuskapar væri liðinn, að fólk tæki verkefninu alvarlega. Enginn hér inni hefur áhuga á að eiga við svona mál. Þetta eru gífurleg vonbrigði. Þetta hefur í grunninn ekkert með pólitíska hugmyndafræði að gera, enda birtist það svo skýrt í könnunum meðal almennings um þetta mál að þvert á flokka er fólk ósátt. 83% þjóðarinnar voru óánægð með bankasöluna samkvæmt skoðanakönnun Prósents síðasta vor. Þetta mál snýst um hæfni, ábyrgð og forystu. Ætlar virkilega enginn hér inni að taka ábyrgð á þessu klúðri?

Virðulegi forseti. Förum alveg aftur til ársins 2012 þegar lög um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum voru samþykkt hér í þessu þingi. Þetta eru sérlög gagnvart öðrum lögum og skulu því ganga framar öðrum reglum sem kunna að gilda um sölumeðferðina. Í 3. gr., sem ber yfirskriftina Meginreglur um sölumeðferð segir eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Þegar ákvörðun er tekin um undirbúning og framkvæmd sölumeðferðar eignarhluta skal áhersla lögð á opið söluferli, gagnsæi, hlutlægni og hagkvæmni. Með hagkvæmni er átt við að leitað sé hæsta verðs eða markaðsverðs fyrir eignarhluti. Þess skal gætt að skilyrði þau sem tilboðsgjöfum eru sett séu sanngjörn og að þeir njóti jafnræðis.“

Spólum til síðasta vors. Þegar Bankasýslan hóf kynningu á sölunni á Íslandsbanka kom þar fram að stofnunin teldi að hagkvæmni eða hæsta verð væri forgangsmarkmiðið eða forgangsmeginreglan í söluferlinu. Þetta stóð í minnisblaði til ráðherra, m.a. stóð þar að það hefði verið ástæðan fyrir því að tilboðsleiðin var valin til að hámarka verð. Það stendur skýrum stöfum í kynningu Bankasýslunnar að dreifð eignaraðild væri ekki aðalmálið, enda hefði það markmið náðst í frumútboðinu á Íslandsbanka á síðasta ári og bankinn væri nú þegar í dreifðri eignaraðild. Þetta viðhorf Bankasýslunnar var síðan staðfest á opnum fundi eftir söluna í vor með fjárlaganefnd Alþingis þar sem kom fram að hagkvæmni eða hæsta verð trompaði jafnræði að mati stofnunarinnar. Athugið þetta: Hæsta verð væri forgangsmarkmiðið og því mætti jafnvel horfa fram hjá jafnræði undir ákveðnum kringumstæðum ef þess þyrfti til að hámarka verð. Daginn eftir útboðið á Íslandsbanka í mars sl. mætti hæstv. fjármálaráðherra í fjölmiðla og lýsti því yfir að salan hefði gengið framar vonum. Eðli fjárfesta hefði verið það sem skipti máli, ekki endilega hæsta verðið. Þarna er strax komin þversögn við Bankasýsluna en margir hugsa sem svo að e.t.v. sé nú eitthvað til í þessu hjá ráðherra. Fyrst ákveðið var að halda lokað útboð sem rökstyðja þarf sérstaklega, enda meginreglan samkvæmt lögunum að halda útboð sem er opið en ekki lokað, þá hlyti markmiðið að vera að tryggja gott eignarhald. Ef á annað borð ætti ekki að sækjast eftir hæsta mögulega verði hlyti það að ráðast af því að fá bestu mögulegu fjárfesta í verkefnið; stóra, stönduga langtímafjárfesta. Þannig mætti rökstyðja lokað útboð, þannig mætti rökstyðja að selja ekki alveg á hæsta verði. Hæstv. fjármálaráðherra lýsti því einmitt yfir í fjölmiðlum þennan sama dag, með leyfi forseta, „að horft hafi verið til þess að nýir eigendur vilji byggja bankann upp til lengri tíma í stað þess að leita að skjótfengnum gróða“. Hann sagði lífeyrissjóði hafa komið sterkt inn með yfirgnæfandi meiri hluta í þessu útboði. Þetta voru hans orð.

Þetta reyndist ekki rétt og hrollur fór um fólk þegar sögur fóru að berast sem síðan voru staðfestar, um að fjölda smárra fjárfesta hefði verið hleypt inn á þessum afsláttarkjörum. Hlutur lífeyrissjóðanna var ekki yfirgnæfandi heldur þriðjungur og einkafjárfestar með minni tilboð voru hátt í þriðjungur þeirra sem hleypt var að afslættinum, afslætti sem er nota bene ekki meitlaður í stein í svona ferli heldur svigrúm til að veita ef þörf er á, t.d. ef laða á að stóra, stönduga fjárfesta sem taka á sig mikla markaðsáhættu með því að kaupa stærri hlut sem þeir ætla að halda á, fjárfesta sem standa með bankanum.

Rök hæstv. fjármálaráðherra, sem voru þá þegar í mótsögn við Bankasýsluna um að hæsta verð væri ekki forgangsmarkmiðið, byggðu á því að eðli fjárfestanna væri aðalmálið. Þetta er lykilatriði. Þegar þeirri röksemdafærslu er beitt er aðalatriðið að jafnræði gildi þá innan þess kaupendahóps sem horft er til. Þetta er forskriftin í sérlögunum um sölu á fjármálafyrirtækjum í eigu ríkisins, gagnsæi, hlutlægni, jafnræði og helsti rökstuðningurinn fyrir því að loka útboðinu til að byrja með, sem þurfti mjög sterk rök til að gera yfir höfuð.

Þessi saga skiptir máli, virðulegi forseti, því þjóðin sat eftir með þá tilfinningu síðasta vor að óljóst hefði verið í hverja var hringt til að hleypa að þessum afsláttarkjörum. Óljóst var hvernig var valið úr tilboðum og hvernig þau voru skert til að mæta umframeftirspurn eftir hlutabréfum í bankanum og óljóst var hvað raunverulega gekk á þetta kvöld þar sem verðið á hlutum ríkisins í Íslandsbanka var ákvarðað. Þessum spurningum þurfti að svara, bæði til að auka traust á ferlinu en einnig til að ganga úr skugga um að farið hafi verið að lögum, þeim sérlögum sem gilda um sölu á fjármálafyrirtækjum í ríkiseigu. Ekki opið ferli, ekki gagnsætt, ekki hæsta verðið, ekki jafnræði. Þetta var tilfinningin og þarna lá grunurinn. Gat það verið að þetta hefði verið svo? Þetta eru þau atriði sem tiltekin eru sem meginreglur í lögunum og samkvæmt skýrslu ríkisendurskoðanda var ekkert af þessu uppfyllt í ferlinu. Það er á ábyrgð hæstv. fjármálaráðherra.

Virðulegi forseti. Stjórnarandstaðan vildi skipa rannsóknarnefnd til að snúa við öllum steinum og teikna upp heildarmynd af ferlinu öllu. Hæstv. fjármálaráðherra stekkur þá til og kallar eftir stjórnsýsluúttekt á vegum Ríkisendurskoðunar. Eins og nafnið bendir til er stofnunin endurskoðandi ríkisins. Hlutverk Ríkisendurskoðunar samkvæmt lögum er að hafa eftirlit með fjármálum og rekstri ríkisins. Þetta eftirlit er mikilvægt og full ástæða til að það fari fram í þessu tilviki. Það nær hins vegar alls ekki yfir það hvort hæstv. fjármálaráðherra hafi vanrækt lagalegar skyldur sínar við söluna á Íslandsbanka og hugsanlega bakað sér lagalega ábyrgð af því tilefni. Þetta vissi hæstv. fjármálaráðherra og hann veit það enn í dag þrátt fyrir þann málflutning sem hér hefur farið fram. Það skýrir e.t.v. hversu snöggur hann var að kalla eftir athugun Ríkisendurskoðunar í þessu máli. Með því að vísa málinu til Ríkisendurskoðunar er hæstv. fjármálaráðherra að segja að málið snúist um ekkert annað en nýtingu ríkisfjár og hagkvæmni og skilvirkni í rekstri ríkisins. Það er einfaldlega ekki rétt. Málið snýst um annað og meira: Hvort fjármálaráðherra hafi farið eftir þeim lögum sem Alþingi setti um sölu eignarhlutar ríkisins þann 22. mars sl. og um þetta verður að ræða.

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir takmarkaðar heimildir Ríkisendurskoðunar, sem farið er yfir á fyrstu blaðsíðum skýrslunnar sem birtist í gær, er kveðið ansi fast að orði. Förum í gegnum þessi fjögur atriði úr lögunum: opið ferli, hæsta verð, gagnsæi og jafnræði.

Í fyrsta lagi: opið ferli. Ríkisendurskoðandi tekur fram í upphafi skýrslu sinnar að það sé ekki tekin afstaða til þess hvort rétt hafi verið að notast við aðrar söluaðferðir en tilboðsfyrirkomulag. Lokun útboðsins er ekki skoðuð. Þetta á eftir að skoða.

Í öðru lagi: hæsta verð. Ríkisendurskoðandi kemst að þeirri niðurstöðu að hæsta verði hafi ekki verið tekið í útboðinu. Í skýrslunni kemur fram að ekki verði annað séð en að, með leyfi forseta: „… verðmyndun í ferlinu hafi gefið tilefni til að ákvarða hærra leiðbeinandi lokaverð en gert var.“ Sérstaklega er vikið að þeirri staðreynd að svo virðist sem ákvörðun lokaverðs hafi byggt á mikilvægi þess að halda erlendum fjárfestum inni í útboðinu þrátt fyrir að umframeftirspurn hafi verið eftir hlutum í bankanum á hærra verði. Ríkisendurskoðun bendir á að hvergi í markmiðum útboðsins hafi verið tekið fram að erlendir aðilar ættu að ráða verðinu í ferlinu. Hér mætti halda því fram að rök hæstv. ráðherra um eðli fjárfestanna hefðu öllu máli skipt, þessa stöndugu langtímafjárfesta sem vilji var til að fá inn í eigendahóp bankans. Hver varð svo raunin með þessa umræddu erlendu fjárfesta sem virðast hafa ráðið verðlagningu og þar með haldið aftur af hæsta mögulega verði? Jú, fréttir bárust af því stuttu eftir útboðið að sömu aðilar hefðu þá þegar selt sig út úr bankanum, tekið snúning á ríkiseign. Hverjir keyptu bréfin af þeim á hærra verði en hafði fengist í útboðinu? Jú, það voru lífeyrissjóðir landsins, fólkið í landinu.

Í þriðja lagi: gagnsæi. Mikið er hægt að segja um þetta efni en ég nefni bara nokkur atriði. Upplýsingagjöf til Alþingis var ábótavant samkvæmt skýrslu ríkisendurskoðanda og þar að auki er tekið fram að tekið hafi verið við tilboðum frá eignastýringarörmum bankanna án þess að nöfn þeirra aðila sem raunverulega voru að baki kaupunum hafi verið gefin upp til söluaðila Bankasýslunnar. Svo ég vitni beint í skýrsluna, með leyfi forseta: „Af þeim sökum gat Bankasýslan vart metið áhrif af sölunni með tilliti til annarra markmiða hennar en forgangsmeginreglunnar um hagkvæmni eða hæsta verð.“ Það vissi enginn hverjir þessir aðilar voru.

Í fjórða lagi: jafnræði. Hér er aðeins fjallað um jafnræði innan þess hóps sem fékk yfir höfuð aðgang að útboðinu, ekki stóru myndina um hvort útboðið hefði mátt vera lokað, og lögum samkvæmt átti fjármálaráðherra að tryggja að jafnræðis væri gætt í útboðinu. Í skýrslu ríkisendurskoðanda kemur fram að það hafi ekki verið gert og niðurstaðan sé sú að ákvarðanir Bankasýslunnar um niðurskurð á tilboðum hafi að miklu leyti byggt á huglægum forsendum, órökstuddu mati sem barst til fjármálaráðherra.

Virðulegi forseti. Hver var tilfinning þjóðarinnar í vor? Hún var: Ekki opið ferli, ekki hæsta verð, ekki jafnræði, ekki gagnsæi. Hver er niðurstaða ríkisendurskoðanda? Ekki hæsta verð, ekki jafnræði, ekki gagnsæi. Tilfinning þjóðarinnar reyndist rétt og það er staðfest í þessari skýrslu.

Hvað segir ríkisendurskoðandi um lagalegu hliðina á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar? Að það sé ekki í verkahring Ríkisendurskoðunar að skera úr um hvort vinnubrögðin hafi verið í samræmi við lög. Þetta stendur skýrum stöfum strax á bls. 3 í skýrslunni og rétt í þessu er í frétt sem birtist á Vísi einmitt vitnað í ríkisendurskoðanda þar sem hann segir að það sé ekki hlutverk stofnunarinnar að skera úr um ágreining þegar kemur að lagatúlkun. Það, að hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra beri fyrir sig að hvergi sé neitt fullyrt um lögbrot í þessari skýrslu er algjör nauðvörn og til marks um að þau eru komin algjörlega út í skurð í þessu máli. Þetta er smjörklípa af feitustu sort. Hagsmunir ríkissjóðs virðast skaðaðir að mati Ríkisendurskoðunar en það alvarlegasta við þetta ferli er að það hefur grafið undan trausti til stjórnvalda og til fjármálakerfisins, trausti sem var laskað fyrir. Það er nákvæmlega vegna þess hversu vel skýrsla ríkisendurskoðanda er unnin sem við í stjórnarandstöðunni viljum að málið gangi lengra og tekið verði á því hvernig niðurstaðan samræmist lögum um sölu ríkisins á hlutum sínum í fjármálafyrirtækjum. Þetta snýst ekki um nornaveiðar, ekki um pólitískar keilur eða einhvers konar árás á hæstv. fjármálaráðherra. Þetta snýst um traust, ábyrgð og hæfni. Þetta er ekki léttvægt mál, virðulegi forseti. Þetta er ekki persónulegt. Ef fólk telur að nú sé málinu bara lokið eftir þessa skýrslu ríkisendurskoðanda er það stórkostlegur mislestur á ábyrgð stjórnmálamanna. Nú reynir á forystu í hæstv. ríkisstjórn. Fyrir hverja eru þau raunverulega að stjórna?