Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[19:03]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er það gagnrýnt að við höfum talað um stóru myndina, heildarniðurstöðuna, og það er ekki að ástæðulausu vegna þess að hún hlýtur að vera undir hér um leið og við veltum fyrir okkur einstaka atriðum í framkvæmdinni eða þeim ábendingum sem koma fram frá ríkisendurskoðanda. Þess vegna segi ég að orð eins og þessi hér, að salan sé eitt stórt klúður frá upphafi til enda, falla um sig sjálf. Ég verð bara að segja það. Þetta er dæmigert fyrir umræðuna sem verið er að reyna að setja af stað, að pakka öllu saman í eitt stórt klúður frá upphafi til enda, þegar við höfum náð öllum helstu markmiðum, yfirlýstum markmiðum sem við stefndum að; að fá gott verð, dreift eignarhald, fjölbreytt eignarhald, auka samkeppni á markaði, láta ekki lífeyrissjóðina eina sitja uppi með allt fjármálakerfið o.s.frv. Við erum með erlendu aðilana enn þá inni og Samfylkingin óskaði sérstaklega eftir því í umsögn í málinu að erlendu aðilarnir fengju að taka þátt (Forseti hringir.) þannig að það sætir furðu að það sé gert lítið úr því hér af formanni flokksins.