Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[19:08]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er áhugavert í þessu samhengi, af því að hæstv. fjármálaráðherra vill leggja svo mikla áherslu á erlenda aðila, er að hann neitaði að svara þessari spurningu áðan: Hvernig stóð á því að þessum aðilum var leyft að ákvarða verð í þessu útboði þrátt fyrir að hvergi hefði verið fjallað um það í greinargerð sem fylgdi þessari sölu? Þessir sömu aðilar fengu um 8 milljarða í útboðinu. Þeir höfðu þrem til fjórum dögum síðar selt um 4 milljarða af þeirri upphæð út. Það hlýtur að vera stór spurning hvernig á því stendur að nokkrir aðilar sem ákvarða verð og hafa enga heimild til þess að ákvarða verð en verða verðlagningaraðilar í þessu útboði hafi síðan fengið að taka snúning til að selja lífeyrissjóðunum í landinu. Það er stóra spurningin sem við eigum að velta fyrir okkur hér inni, hvort þetta sé fordæmi sem við viljum setja við einkavæðingu á fjármálafyrirtækjum, að hér geti erlendir sjóðir komið inn og gert grín að íslenska ríkinu og þar með þjóðinni með því að taka svona snúning.