Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[19:10]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hæstv. fjármálaráðherra sem er búinn að breyta umræðunni hér í dag í umræðu um lögbrot. Þetta snýst allt um það hvort ríkisendurskoðandi hafi í rauninni svigrúm til að fullyrða hvort um lögbrot sé að ræða þegar ríkisendurskoðandi hefur ítrekað komið fram og sagt að það sé ekki í verkahring hans að ákveða túlkun á lögum. Það eru stjórnarliðar sem hafa breytt þessari umræðu í eitthvert lagatæknilegt atriði þegar kemur að þessari túlkun. Ég var reyndar að vitna hérna áðan til hæstv. forsætisráðherra, mér finnst fullkomlega eðlilegt að formaður í hv. efnahags- og viðskiptanefnd verji hana líka í þessu samhengi. Það liggur alveg fyrir að þegar farið var í það upplegg að láta Ríkisendurskoðun að skoða þetta mál að Ríkisendurskoðun myndi ekki fullyrða hvort um lögbrot væri að ræða samkvæmt þeim lögum sem hér er verið að tala um. Það lá fyrir í upphafi. Það er ríkisendurskoðandi að segja í fréttum líklega í þessum töluðu orðum, hann sagði það fyrr í dag. Við erum einfaldlega að kalla eftir því að við fáum rannsóknarskýrslu sem gerir okkur kleift að vita hvort um lögbrot hafi verið að ræða, því að við getum ekki fullyrt um það fyrr en það er komið fram.