Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[19:12]
Horfa

Guðrún Hafsteinsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er búið að kalla eftir því frá fyrsta degi að rannsóknarnefnd taki yfir og rannsaki þetta ferli. Mig langar að fá að nefna hér annað. Það kemur fram í skýrslu ríkisendurskoðanda að sala með tilboðsfyrirkomulagi sé langalgengasta söluaðferðin á evrópskum hlutabréfamarkaði við sölu á hlutum ráðandi hluthafa í skráðum félögum. Sömuleiðis kom eftirfarandi fram í umsögn 2. minni hluta fjárlaganefndar, sem sagt Samfylkingarinnar, fyrir söluna:

„Ef tekin verður ákvörðun um að selja hlut ríkisins í bankanum er nauðsynlegt að leggja meiri áherslu á að fá fjölbreyttari fjárfesta að borðinu og fleiri alþjóðlega fjárfesta og tilboðsfyrirkomulag getur verið betur til þess fallið að laða að langtímafjárfesta með reynslu.“

Þetta var krafa Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd í umsögn sinni. Við henni var orðið og fyrir vikið fékkst ágæt erlend þátttaka. Því spyr ég: Hvaða fyrirkomulag sá hv. þingmaður fyrir sér að færi best á að nota?