Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[19:15]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu sína. Mér fannst hún mjög yfirgripsmikil og upplýsandi. Mig langar að bera svipaða spurningu undir hv. þingmann og ég bar undir hæstv. fjármálaráðherra fyrr í morgun, en ég bar undir hann það sem kemur fram í skýrslunni, að samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðgjafa Bankasýslunnar sem hún gefur Bankasýslunni og ráðuneytinu sé óvenjulegt að einkafjárfestum sem einungis hafi verið samþykktir sem fagfjárfestar, skv. 54. gr. laga um markaði fyrir fjármálagerninga, sé boðin þátttaka í sölu með tilboðsfyrirkomulagi. Mig langar að spyrja hvað henni finnist um þá ákvörðun fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Bankasýslunnar um að gera samt sem áður ráð fyrir þátttöku einkafjárfesta sem uppfylltu þessi skilyrði, sér í lagi í ljósi þessarar síendurteknu vísunar bæði Bankasýslunnar og ráðherra í að tilboðsfyrirkomulagið sé jú alltaf notað alls staðar en þeir velji séríslenska leið með þetta tilboðsfyrirkomulag.