Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[19:16]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa fyrirspurn og hún er nefnilega áhugaverð í ljósi ummæla hæstv. fjármálaráðherra að morgni útboðsins um að yfirgnæfandi hópur þeirra sem fjárfestu í þessu útboði hefðu verið lífeyrissjóðir. Hún er líka í samræmi við skilning til að mynda formanns hv. fjárlaganefndar sem sagði eftir útboðið að það hefði verið skilningur hennar þegar var talað um tilboðsleið að þá væri átt við stóra, stönduga langtímafjárfesta stofnanafjárfesta. Ótrúlegt en satt, þá voru send út þau skilaboð að morgni útboðs að þetta væru aðilarnir. Af einhverri ástæðu mætir hæstv. fjármálaráðherra ekki í fréttir og segir: Við hleyptum fjölda einkafjárfesta í þetta ferli, vegna þess að staðreyndin er sú að skilningur flestra á tilboðsferli, þar með talið flestra markaðsaðila sem fólk hér inni, hv. þingmenn, myndi ræða við, er að um sé að ræða stönduga stofnanafjárfesta. Það er alþekkt á markaðnum. Þess vegna kemur upp þessi misskilningur að morgni útboðs þegar fréttist að aðrir hafi tekið þátt. Svo koma eftir á einhverjar skýringar um að þetta hafi nú alveg mátt. En þetta var skilningur flestra, þar með talið þeirra sem hafa þekkingu í þessum málaflokki.