Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[19:19]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, þetta er hið ótrúlegasta mál. Þetta er til marks um hversu margsaga hæstv. ríkisstjórn hefur orðið í þessu máli og þar liggur alvarleiki málsins. Þetta er nákvæmlega ástæðan fyrir því að það þarf að skipa rannsóknarnefnd svo við getum rakið okkur í gegnum þessa sögu, svo við stöndum ekki hér inni og séum að rökræða um smáatriði sem enginn veit um. Hvernig væri að fá þetta bara allt upp á borðið þannig að við þyrftum ekki að vera að ræða um þetta í smáatriðum? Það kemur nefnilega fram í skýrslunni að ríkisendurskoðandi skoðar ekki lokunina á útboðinu, hvort lokunin á útboðinu hafi upphaflega staðist lög. Við fengum mikla yfirferð á því í vor að mögulega hafi einmitt aðkoma minni fjárfesta, þessara einkafjárfesta, ekki staðist lög, þ.e. staðist þá röksemd að loka ferlinu upphaflega. Þannig að þetta er önnur ástæða fyrir því að þessu máli er augljóslega ekki lokið. Það á eftir að rannsaka hvort í upphafi hafi mátt loka þessu útboð miðað við þá sem var hleypt að.