Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[19:21]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, hér er náttúrlega um að ræða þessa feitu smjörklípu sem ég ræddi um áðan, að breyta umræðunni í það hvað ríkisendurskoðandi var raunverulega falið að skoða. Nú erum við komin á þann stað í þessum sal að ríkisendurskoðandi átti víst að tæma málið. Það átti bara að liggja fyrir þegar ríkisendurskoðandaskýrslan kæmi fram nákvæmlega frá A til Ö hvað hefði gerst þrátt fyrir að allir í þessum sal viti að heimildir ríkisendurskoðanda eru takmarkaðar og ríkisendurskoðandi hefur oft á síðasta sólarhring talað um að það sé ekki í hans verkahring að skera úr um lagatæknileg atriði í þessu máli. Pólitíska ábyrgð er vissulega hægt að taka algerlega óháð því hvort við komumst að niðurstöðu í þessu máli. Við getum líka bara séð hver lokaafurðin var, þ.e. að það varð hér mikið uppnám varðandi söluna, að það liggur fyrir varðandi úttekt ríkisendurskoðanda að það var ekki vel að þessu staðið og sumir myndu sjá sóma sinn í að taka strax ábyrgð. En við erum ekki í þannig landi eða þannig þjóðþingi, því miður.