Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[19:25]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Þessi umræða hefur átt sér alllangan aðdraganda, ekki bara frá því að hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórnin öll tilkynnti að þau hefðu beðið um þessa úttekt Ríkisendurskoðunar heldur má segja að umræða og gagnrýni á þetta hafi hafist strax að útboðinu loknu. Hún tók stundum á sig dálítið sérstakar myndir, til að mynda þegar einn af ráðherrunum úr nefndinni sem fjallaði um þessa ákvörðun og undirbúning hennar sagðist hafa varað við því að ráðist yrði í þetta með þessum hætti. Aðrir ráðherrar í nefndinni, hæstv. fjármálaráðherra og forsætisráðherra, könnuðust ekki við þetta en hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra sagði síðar frá því í þinginu að í raun hefðu allir ráðherrarnir í nefndinni varað við því að þessi leið yrði farin. En hafi þetta verið raunin sáu þeir ekki ástæðu til að lýsa þessum áhyggjum sínum fyrir þinginu, því þetta var kynnt sem mjög snjöll leið til að ráðast í þennan seinni hluta sölu hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka.

Þegar þetta fór af stað gerðist það nokkuð óvænt. Ég held að landsmenn hafi langflestir fyrst heyrt af þessu eða haft tækifæri til að heyra af þessu þann þekkta dag núorðið, 22. mars 2022, dag útboðsins, þegar frétt birtist á mbl.is kl. 17.15 síðdegis. Fyrirsögn fréttarinnar var: Selja 20% hlut í Íslandsbanka strax í kvöld. Ég ætla að lesa nokkrar setningar úr þessari frétt, með leyfi forseta:

„Söfnun tilboða hófst strax eftir lokun markaða í dag“ — þetta er skrifað 17.15, klukkustund og korteri eftir lokun markaða — „og getur lokið hvenær sem er með skömmum fyrirvara samkvæmt tilkynningu frá Bankasýslunni. Gert er ráð fyrir að niðurstöður söluferlisins verði birtar fyrir opnun markaða í fyrramálið …“.

Með þessum hætti heyrðu flestir landsmenn fyrst af því að þetta merka útboð væri hafið og vekur það óneitanlega spurningar um jafnræði og möguleika áhugasamra fjárfesta á að taka þátt í þessu, til viðbótar við þær reglur sem margir hv. þingmenn hafa farið yfir í umræðunni í dag og ræddar hafa verið með vísan í skýrsluna.

Hv. þingmenn hafa farið allítarlega yfir efni skýrslunnar og gagnrýnt mjög framkvæmd þessa máls. Það hafa reyndar ráðherrar Framsóknarflokksins gert líka, tveir þeirra a.m.k., nú síðast hæstv. innviðaráðherra sem telur að það hafi allt verið hið versta mál að fara út í þetta, en kennir þó Bankasýslunni alfarið um það ólíkt því sem hæstv. viðskiptaráðherra hafði sagt, a.m.k. í upphafi, að það lægi að sjálfsögðu pólitísk ábyrgð að baki ákvörðunum um hvernig að þessu yrði staðið.

Hæstv. fjármálaráðherra hefur nefnt að það skorti heildarmynd í þessa umræðu og það má til sanns vegar færa. Ég er sammála hæstv. ráðherra um að það mætti líta meira á heildarmyndina og ég ætla að reyna að gera það í því sem eftir er af þessari ræðu. Ég vil byrja á að rifja aðeins upp upphafið, hvernig það kom til að ríkið eignaðist aftur Íslandsbanka, og raunar ýmsar fleiri eignir, en það var með aðgerðum stjórnvalda á sínum tíma eftir talsverð átök sem leiddu nánast til algerrar yfirtöku stjórnvalda ríkisins á fjármálakerfinu á Íslandi, og auk þess skiluðu slitabú bankanna fjölmörgum öðrum eignum og miklum verðmætum til ríkisins til að hægt yrði að afnema gjaldeyrishöft. Þetta hafði þann tvöfalda kost í för með sér að hægt var að afnema gjaldeyrishöftin en um leið fékk ríkið gríðarlega miklar eignir. Ætli það nálgist ekki samanlagt um 1000 milljarða á núvirði.

Hluti þessara eigna var Íslandsbanki. Eins og mér varð tíðrætt um á sínum tíma þá átti það bara að vera fyrri hluti þess verkefnis sem ríkisstjórnin hafði hafið, þ.e. að tryggja þessar eignir. Seinni hlutinn þyrfti að vera sá að nýta það einstaka tækifæri sem gafst til að endurskipuleggja fjármálakerfið á Íslandi, koma á heilbrigðara fjármálakerfi fyrir almenning og fyrirtæki. Að þessu þyrfti að huga þegar ráðist væri til að mynda í sölu bankanna, það hefði þurft að leggja línurnar um hlutverk þeirra til framtíðar og hvernig það yrði best tryggt. En það mátti ekki líta af þessu því fljótt voru teknar algjörar U-beygjur hvað varðar til að mynda kaup ríkisins á aflandskrónum, þar var bara gefið eftir. Arion banki var í raun afhentur vogunarsjóðunum aftur, þeir fengu að kaupa hann á afslætti eins og ég rökstuddi á sínum tíma fremur en að ríkið nýtti hann í að koma á heilbrigðara fjármálakerfi. Svo var ráðist í einkavæðingu Íslandsbanka með fulltingi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, meðal annarra, sem þar með tók þátt í sinni annarri einkavæðingu banka.

Í fyrra útboðinu var lagt til grundvallar leiðbeinandi verð sem var á bilinu 71 kr. til 79 kr. á hlut. 79 kr. var sem sagt hámarksviðmiðunarverð. Niðurstaðan varð sú að það var margföld umframeftirspurn eftir hlutabréfum í bankanum og það þrátt fyrir að aukið hefði verið við þá hlutdeild sem seld var, færð úr lágmarkinu sem var 25% upp í 35%. Engu að síður var margföld eftirspurn á þessu verði, enda reyndist það vera mjög lágt. Ekki fyrr höfðu markaðir opnað en farið var að kaupa og selja þessi bréf á tugum prósenta hærra verði en ríkið hafði boðið þau á í þessu útboði. Næstu vikurnar hækkuðu þau hratt, fóru á fáeinum vikum upp í verð sem var hátt í 60% hærra en útboðsgengið sem lagt hafði verið til viðmiðunar af hálfu ríkisins. Þetta vakti þó takmörkuð viðbrögð á sínum tíma en mér finnst rétt að setja þetta í samhengi við umræðuna nú. Það er eðlilegt að við veltum fyrir okkur sem hluta af þessu öllu hvort ríkið hefði getað fengið hærra verð fyrir bankann, en þar er iðulega talað um muninn á 117 eða 118 kr. og kannski upp í 120 kr. eða rúmlega það. Það er mjög þröngt bil miðað við það álitamál sem var varðandi verð í fyrra útboðinu þó að það sé vissulega ómögulegt fyrir ríkið að ætla sér alltaf að selja hlut sinn í bankanum á fullkomnu hámarksverði — hlutabréfaverð sveiflast eins og menn þekkja. Þó vekja þessar vangaveltur nú óhjákvæmilega upp spurningar um fyrra útboðið og fyrri ákvarðanir um hvernig fjármálakerfið skyldi einkavætt aftur. Það stóð að sjálfsögðu aldrei til að ríkið ætti allt fjármálakerfið meira og minna til framtíðar, en það hvaða ráðstafanir menn gerðu áður en farið yrði í að selja og með hvaða hætti yrði selt hlaut alltaf að verða grundvallaratriði.

En svo skiptir líka máli hvernig farið er með peningana. Sama hversu miklir peningar fást fyrir þá skiptir máli hvernig þeim er ráðstafað og að þeim sé ekki eytt í vitleysu. Fyrsta hugmyndin sem birtist um nýtingu peninga sem kæmu fyrir söluna á hlutabréfum Íslandsbanka var í áformum ríkisstjórnarinnar um að fjármagna borgarlínu fyrir borgina að verulegu leyti, af einhverjum óskiljanlegum ástæðum. Þar var talað um að verja mætti 50 milljörðum í borgarlínu, sem er kannski svipað og verið er að tala um í þessu útboði. Hvað sem líður slíkum hugmyndum þá er alla vega ljóst að á þessu tímabili, þar sem ríkið hefur verið að reyna að koma þessum eignum í verð og fá vonandi sem mest fyrir þær, hafa ríkisútgjöld aukist alveg gífurlega. Fyrir vikið nýtist þetta fjármagn ekki sem skyldi í að greiða niður skuldir eins og átti að vera eitt af meginhlutverkum þess. Ríkisútgjöldin jukust óhemju mikið á Covid-tímabilinu. Þá var það kynnt sem tímabundin ráðstöfun til að takast á við neyðarástand, ástand þar sem ríkið var búið að fyrirskipa lokun á atvinnustarfsemi að miklu leyti, skiljanlegt að það væri dýrt og ríkið þyrfti að fjármagna það. Þá vildi svo til að ríkissjóður stóð vel vegna þessara stöðugleikaframlaga en svo er bara haldið áfram að eyða eins og það sé viðvarandi Covid- neyðarástand, eins og atvinnulífið sé ekki komið af stað. Þetta veldur mér mjög verulegum áhyggjum og ég get ekki annað en nefnt að í samhengi við þær vissulega háu tölur sem stjórnvöld státa sig nú af að fá fyrir að selja eignir — þótt menn telji að þær mættu kannski vera eitthvað hærri — þá skiptir líka máli hvað verður um þessar tekjur þegar ríkið fær þær. Mér finnst svekkjandi, frú forseti, að sjá að þetta nær ekki eins langt og það hefði getað gert ef haldið hefði verið aftur af vexti báknsins og ríkisins. Þetta hefði nýst betur í hagkvæma fjárfestingu og niðurgreiðslu skulda.

Að þessu öllu sögðu og þessu svekkelsi yfir þróun ríkisfjármálanna þá liggur fyrir að ferlinu er ekki alveg lokið. Ríkið á enn þá stóran hlut í Íslandsbanka. Það hafði verið boðað að hann yrði seldur núna fljótlega og raunar hafði hæstv. fjármálaráðherra boðað að á þessu kjörtímabili myndi ríkið selja hlut sinn bæði í Íslandsbanka og Landsbanka. Það verður að teljast ólíklegt að það verði af því alveg á næstunni nema menn fari þá leið sem er augljóslega gagnsæ og sanngjörn, sem Miðflokkurinn lagði til fyrir kosningar 2017 og svo aftur fyrir kosningarnar núna síðast. Það er einfaldlega að afhenda öllum landsmönnum hlut í bankanum sínum. Þar var miðað við þriðjungshlut til að byrja með og allir landsmenn sem væru fæddir en ekki dánir fyrir ákveðna dagsetningu fengju einfaldlega sinn hlut til ráðstöfunar, hugsanlega með einhverjum tíma sem þyrfti að líða áður en menn gætu selt. Það gæti verið skynsamlegt að hafa það t.d. tvö ár en þyrfti ekki að vera og má útfæra með ýmsum hætti. Þá fengi hver og einn eign sína beint. Ég held almennt að landsmönnum sé að jafnaði betur treystandi en ríkinu til að fara með þessar eignir sínar, meta hvort þeir vilji áfram eiga hlut í banka eða gera eitthvað annað við peningana — svona að jafnaði, miðað við hvernig tekst nú stundum til þegar ríkið fer með peninga almennings. Ég vona að ríkisstjórnin muni nú loks, eftir þrautagöngu liðinna missera og ára, íhuga slíkar leiðir. Sanngjarnar, gagnsæjar og einfaldar leiðir við að skila þessum verðmætum til hins raunverulega eiganda: Almennings í landinu.