Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[19:40]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir fína ræðu. Það var áhugavert að heyra þessa yfirferð alla. Sérstaklega var ánægjulegt að heyra hann draga fram þetta samhengi við aukningu ríkisútgjalda af því að stærsti flokkurinn í ríkisstjórnarsamstarfinu hefur það bæði á sinni eilífðarstefnuskrá að halda ríkisútgjöldum í hófi og síðan ekki síður að láta ríkið ekki vera í óþarfa samkeppnisrekstri, sem bankakerfið fellur undir. Núna heldur ríkið enn þá á stórum hluta í bankanum.

Ég get ekki sagt að ég hafi verið eitthvað sérstaklega hrifinn af þessum áformum Miðflokksins um hvernig ætti að fara með eignarhlutinn, að dæla honum út með þeim hætti sem lýst var. Látum það liggja á milli hluta. Eftir stendur alltaf þessi spurning sem hv. þingmaður kom aðeins inn á: Hvernig ætlum við núna að horfa til framtíðar með fjármálakerfið? Það er enn þá að stórum hluta í eigu ríkisins. Í fjárlögum var gert ráð fyrir því að áframhaldandi sala á Íslandsbanka gæti skilað ríkinu 75 milljörðum. Eignarhlutinn í dag er metinn á talsvert meira en það og er kominn yfir 100 milljarða og þetta hlutabréfaverð sveiflast auðvitað upp og niður. En það hefði vissulega verið gott að vera í þeirri stöðu að það ríkti eitthvert traust um áframhaldið.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Óháð því hvert fyrirkomulag sölunnar verður framvegis, hvaða líkur telur hv. þingmaður á að það verði hægt að losa um eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum á næstu misserum? Telur hv. þingmaður að það ríki þannig traust í samfélaginu að það verði hægt að fara í frekari einkavæðingu á næstu misserum eða hvernig lítur hann á að mál muni þróast út frá stöðunni í dag, í framhaldi af þessari sölu sem við ræðum hér?