Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[19:42]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Í ljósi stöðunnar í samfélaginu, ríkisstjórninni og þinginu finnst mér mjög ólíklegt að ráðist verði í þessa sölu á næstunni, sem gert var ráð fyrir í fjárlögum eins og hv. þingmaður segir. En það er þó háð aðferðinni og ég tel að sú aðferð sem ég nefndi hér áðan gæti verið til þess fallin að ná sátt um málið. Með því koma þessir 75 milljarðar eða einhver önnur upphæð ekki beint inn í ríkissjóð og eftir stendur þá gatið í fjárlögunum. Hversu stórt það yrði hefði reyndar alltaf oltið á því hvernig yrði farið með þessa peninga. Ef þeir færu í að greiða niður skuldir myndi það augljóslega lækka vaxtabyrði ríkisins en ef þeir færu í borgarlínuna þá væri nú betra fyrir ríkið annaðhvort að eiga bankann áfram eða afhenda hann almenningi. Tapið af því að afhenda almenningi eigur sínar beint er hins vegar á endanum ekkert fyrir ríkið því að ríkissjóður er sameiginlegur sjóður landsmanna og ef allur almenningur stendur betur þá skilar það sér í auknum umsvifum og á endanum í auknum tekjum ríkisins, a.m.k. er ekki líklegt að ráðist verði í skattalækkanir alveg á næstunni þó að hæstv. fjármálaráðherra hafi nýverið boðað kosningaloforð fyrir næstu kosningar hvað það varðar. Að öllu þessu sögðu er ljóst að hvað þetta varðar munu forsendur fjárlaga varla standast sem er svo sem ekki eina tilvikið um að forsendur fjárlaga hjá þessari ríkisstjórn standist ekki alveg.