Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[19:44]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir. Hver staðan er núna upp á áframhaldandi sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum finnst mér að mörgu leyti vera algjör lykilspurning í íslenskri pólitík nú um stundir. Þetta er mikið stefnumál ríkisstjórnarinnar og stendur í stjórnarsáttmála. Einn og stærsti stjórnarflokkurinn leggur alltaf gríðarlega mikla áherslu á þessi mál og hefur núna í umræðunni um einkavæðinguna á Íslandsbanka það sem af er talað um að með því hafi einhver ógurleg fjármálasnilld ríkisstjórnarinnar verið leyst úr læðingi í því að búa til tekjur fyrir ríkissjóð. Í ljósi þess að stefnan er enn þá að halda áfram að selja þá hljótum við að geta dregið þá ályktun að ef ríkinu gekk svona rosalega vel að losa um eignarhlutana sem búið er að losa um en liggur læst inni vegna eigin klúðurs og þess trausts sem fer nú þverrandi á áframhaldandi sölu, þá sé ríkisstjórnin í raun að grafa sína eigin gröf þegar kemur að þessum markmiðum og nær augljóslega ekki þeim tekjum inn í ríkissjóð, hvenær svo sem þær eiga að koma ef þetta gengur ekki upp á endanum.

Ég hef svolítið verið að reyna að beina umræðunni í þá átt til þeirra sem eru þeirrar skoðunar að ríkið eigi ekki að standa í bankarekstri, að þessari ríkisstjórn hefur algjörlega mistekist að leiða það verkefni til lykta. Ég ætlaði bara að fá það staðfest frá hv. þingmanni hvort hann sé ekki sammála því mati og að það sé voðalega erfitt fyrir ráðherra ríkisstjórnarinnar að guma sig af því hvernig hafi hingað til gengið að ná peningum inn í gegnum einkasölu þegar áframhaldið er algerlega óskrifað blað og eiginlega nánast útilokað að það sé framkvæmanlegt.