Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[19:46]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Eftir fyrra útboðið, sem var ekki gagnrýnt mjög mikið á sínum tíma þó að það hafi kannski verið meira tilefni til eins og við sjáum nú, þá státaði einmitt meiri hlutinn og ríkisstjórnin sig af því hversu vel hefði tekist og sögðu nokkurn veginn: Sjáið hvað við gerðum. Þegar gagnrýni kemur segja þau nú: Sjáið hvað Bankasýslan gerði. Hæstv. innviðaráðherra var í viðtali um þetta í fréttum í kvöld þar sem hann, eins og ég nefndi stuttlega áðan, sagði að þetta hefði allt saman verið ómögulegt en það væri allt Bankasýslunni að kenna og bar fyrir sig armslengd.

Af því að það má vitna í fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar með ríkisendurskoðanda þá hafði hann orð á því að það væri varla hægt að tala um armslengdarsjónarmið á Íslandi í þessu litla samfélagi og litla kerfi. Mig minnir að hann hafi orðað það þannig að það væri þá einhvers konar stuttur gerviarmur. Innviðaráðherra veifaði þessum stutta gerviarmi í fréttunum í kvöld þó að, eins og ég nefndi áðan, ráðherrar hafi áður, bæði í fyrra og seinna útboðinu meira og minna viðurkennt hið augljóslega: Þeir marka stefnuna og taka ákvarðanirnar, hvort sem þær ákvarðanir eru teknar á ráðherranefndarfundi um efnahagsmál þar sem allir ráðherrarnir vara sjálfa sig við því sem þeir eru að gera eða með öðrum hætti. Ábyrgðin er á endanum þar og það mun vefjast fyrir mönnum, jafnvel þótt hugmyndum sé velt upp um að búa til eins konar nýja bankasýslu sem enginn hefur hugmynd um hvernig muni líta út og er ólíklegt að það verði til að leysa málið alveg í bráð.