Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[20:18]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að þegar maður horfði á hvernig þetta spilaðist og sérstaklega hvað það kom kannski mörgum á óvart að þarna voru litlir aðilar og aðilar sem komu einhverjum á óvart að væru þarna, ég er að reyna að segja þetta skýrt en samt kurteislega, þá skil ég það mætavel, ég var ein af þeim sjálf. Ég held við verðum samt líka að spyrja okkur: Hvar hefði átt að draga þá línu? Það hefði örugglega verið hægt. Línan var dregin við þá sem eru samkvæmt lögum skilgreindir sem fagfjárfestar, það er bara skrifað út hverjir það eru. Núna er til skoðunar, að ég held, hvort þeir söluaðilar sem sáu um að hafa samband við þessa aðila hafi gulltryggt að allir þessir aðilar uppfylltu í reynd öll skilyrði þess að vera fagfjárfestar. Það kemur vonandi eitthvað út úr því fljótt. Það er ein lína, hún er svolítið skýr. (Forseti hringir.) Allir sem féllu undir þetta fengu að taka þátt í þessu útboði. Ef það á að gefa einhverja (Forseti hringir.) aðra línu þá þarf að rökstyðja það. Það hefði kannski verið einfaldari leið, ég skal ekki segja.