Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[20:20]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. „Ég get ekki séð annað, virðulegi forseti, en að ráðherrann hafi algjört vald á því hvernig hann fari með þessi mál.“ Þetta sagði hv. þm. Sjálfstæðisflokksins, Guðlaugur Þór Þórðarson, þegar frumvarp til laga um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum var til umræðu á Alþingi 20. desember 2012. Hann gagnrýndi að með frumvarpinu væri Alþingi að veita ráðherra algjört ákvörðunarvald þegar fjármálafyrirtæki væru seld og hann var ekki sá eini sem lagði þennan skilning í lögin, að ákvörðunarvaldið og ábyrgðin lægi hjá ráðherra og það væri svo bara Bankasýslunnar að framkvæma vilja ráðherra. Eftir að það urðu stórkostleg mistök við sölu á Íslandsbanka þá hafa stjórnarliðar talað mikið um að lögin geri ráð fyrir einhverri sérstakri armslengd og ráðherra eigi ekki að hafa afskipti af bankasölu, bankasölu sem ráðherra tekur sjálfur ákvörðun um samkvæmt lögunum og hefur eftirlit með samkvæmt lögunum. (Forseti hringir.) En ég vil spyrja hv. þingmann: Hvar í lögunum sjálfum og greinargerðinni með frumvarpi laganna (Forseti hringir.) finnur hv. þingmaður þessi armslengdarsjónarmið sem hér er sífellt verið að tala um?