Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[20:24]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit ekki alveg hvort hér var um einhvern misskilning að ræða en ég vissi um hvaða lög ég var að tala um, ég ruglaðist bara í ártalinu, ég var að tala um lögin um Bankasýsluna. Við erum að tala um samspil ráðherra og Bankasýslunnar í þessu máli. Í framsöguræðu um frumvarp til þeirra laga notaði þáverandi ráðherra, sem lagði fram málið, orðið armslengd til að útskýra sín sjónarmið um sjálfstæði stofnunarinnar frá ráðherra, svo öllu sé haldið til haga. Ég tek alveg undir það og segi hér enn og aftur að mér þykja lögin frá þessum árum í kringum þessi mál öll, og það kristallast í þessari skýrslu, ekki nógu skýr, hvor tveggja. Það er mitt mat. Ég held að við getum gert betur þar. Við erum í rauninni í þeirri stöðu að skoða lagalega í hvaða stöðu ráðherra er gagnvart sjálfstæðu stjórnvaldi þar sem hann má ekki nema með sérstakri lagaheimild taka ákvörðun sem fer gegn þeirri stofnun o.s.frv. Þar kemur armslengdin fram þó að orðið sjálft sé ekki með.