Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[20:25]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Skýrsla Ríkisendurskoðunar er mikill áfellisdómur yfir sölunni á 22,5% hlut í Íslandsbanka 22. mars 2022. Skýrslan er áfellisdómur yfir fjármálaráðherra sem ber ábyrgð á sölunni. Það er engum öðrum til að dreifa þar. Skýrslan er einnig áfellisdómur yfir Bankasýslu ríkisins sem hafði umsjón með sölunni fyrir hönd fjármálaráðherra. Við söluna voru brotin lög um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum, nr. 155/2012. Það eru engin önnur lög þar undir. Lögin um Bankasýsluna eiga ekki við. Það eru lög um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum sem eru undir. Samkvæmt þeim lögum ber ráðherra ábyrgð á sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Samkvæmt þeim lögum tekur ráðherra ákvörðun um sölu eignarhluta, enda er í þeim lögum ráðherra veitt heimild til þess til að selja eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka. Í fjárlögum þessa árs veitir Alþingi fjármálaráðherra heimild til að selja Íslandsbanka. Flokkur fólksins var einn flokka á móti því að veita ráðherra þessa heimild, einn flokka.

Það er fjármálaráðherra sem seldi eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka. Við söluna seldi fjármálaráðherra föður sínum hlut. Til þess var hann vanhæfur. Það er brot á stjórnsýslulögum. Það segir mikið um hvers konar fúsk og vanhæfni við Íslendingar höfum þurft að horfa upp á við þessa sölu. Það er miður að ekki er minnst einu einasta orði á þetta í rannsóknarskýrslu Ríkisendurskoðunar. Hafa ber einnig huga að selt var á genginu 117. Dagslokagengið var 122 og það var umframeftirspurn í útboðinu á því verði, eftirspurnin var 120% á að kaupa genginu 122. Munurinn á því að selja á genginu 117 eða 122 er 2,25 milljarðar. Íslenska ríkið var að tapa 2 milljörðum og 250 millj. kr. á þessu fúski sem hér átti sér stað. Það er hægt að færa það til bókar og hægt að verðmeta fúskið.

Hafa ber í huga að Ríkisendurskoðun lítur ekki á það sem hlutverk sitt í skýrslunni að kveða á um hvort lög séu brotin eða ekki. Það er mjög mikilvægt atriði svo það liggi fyrir. Það sýnir jafnframt mikilvægi þess að rannsóknarnefnd Alþingis verði skipuð til að rannsaka þessa sölu enn frekar. Það eru gríðarlega miklir hagsmunir í húfi. Á bls. 3 í skýrslu Ríkisendurskoðunar, þessu plaggi hér, Sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka 22. mars 2022 – Stjórnsýsluúttekt, skýrsla til Alþingis nóvember 2022, segir, með leyfi forseta:

„Það fellur utan hlutverks Ríkisendurskoðunar að taka afstöðu til ágreiningsefna um lagatúlkun og ber embættinu að gæta varúðar að álykta almennt um túlkun og skýringu laga, enda er öðrum aðilum falið það hlutverk að lögum.

Úttektinni er ætlað að varpa ljósi á undirbúning og framkvæmd sölu eignarhlutar ríkisins í Íslandsbanka og einna helst þá atburðarás sem átti sér stað á söludegi, 22. mars 2022. Hún tekur þannig til þess hvernig staðið var að sölu umrædds eignarhluta út frá lögum, skilgreindum markmiðum með sölunni og sjónarmiðum um góða stjórnsýsluhætti.“

Einnig segir, með leyfi forseta:

„Að lokum er ekki lagt mat á hvort vinnubrögð umsjónaraðila söluferlisins, söluráðgjafa eða söluaðila hafi verið í samræmi við gildandi lög og reglur, þ. á m. hvort sölunni hafi verið beint að öðrum en hæfum fjárfestum. Það síðastnefnda sætir eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands.“

Það er því kristaltært að Ríkisendurskoðun er ekki að meta það hvort lög hafi verið brotin. Ríkisendurskoðun er ekki að kanna ákvarðanir fjármálaráðherra eða verklag sem ástæða þykir til að athuga á grundvelli eftirlitshlutverk Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu. Það er hlutverk stjórnsýslu- og eftirlitsnefndar. Í 13. gr. laga um þingsköp segir að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fjalli m.a. um skýrslur Ríkisendurskoðunar og nefndin skili áliti til þingsins eftir athugun sína skýrslunni.

„Nefndin skal einnig hafa frumkvæði að því að kanna ákvarðanir einstakra ráðherra eða verklag þeirra sem ástæða þykir til að athuga á grundvelli þess eftirlitshlutverks sem Alþingi hefur gagnvart framkvæmdarvaldinu. […] Um athugun sína getur nefndin gefið þinginu skýrslu.“

Alþingi verður að fá skýrslu frá stjórnsýslu- og eftirlitsnefnd hvað þetta varðar. Hér segir einnig:

„Nefndin skal jafnframt leggja mat á og gera tillögu til Alþingis um hvenær rétt er að skipa rannsóknarnefnd, sbr. lög um rannsóknarnefndir. Nefndin tekur skýrslur slíkrar nefndar til umfjöllunar og gefur þinginu álit sitt um þær og gerir tillögur um frekari aðgerðir þingsins.“

Það er alveg kristaltært að í þessu máli verður að skipa rannsóknarnefnd Alþingis. Það þarf ekki að lesa skýrslu Ríkisendurskoðunar lengi til að sjá það.

Í lögum um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum segir, með leyfi forseta, í 3. gr., sem fjallar um meginreglur við sölumeðferðina:

„Þegar ákvörðun er tekin um undirbúning og framkvæmd sölumeðferðar eignarhluta skal áhersla lögð á opið söluferli, gagnsæi, hlutlægni og hagkvæmni. Með hagkvæmni er átt við að leitað sé hæsta verðs eða markaðsverðs fyrir eignarhluti. Þess skal gætt að skilyrði þau sem tilboðsgjöfum eru sett séu sanngjörn og að þeir njóti jafnræðis. Þá skal við sölu kappkosta að efla virka og eðlilega samkeppni á fjármálamarkaði.“

Það er alveg kristaltært að nánast hvert einasta atriði í 3. gr. laga um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum var brotið. Var áhersla lögð á opið söluferli, gagnsæi, hlutlægni og hagkvæmni líkt og kveðið er á um í lögunum? Það er augljóst mál og ég vil byrja á því að það var ekki samþykkt hæsta verð. Það er augljóst mál vegna þess að það var 120% eftirspurn eftir bréfunum á genginu 122. Það var selt á 117. Af hverju? Jú, af því að Bankasýsla ríkisins var með þá dillu í höfðinu að það yrði að selja erlendum fjárfestum. Þess vegna tapaði ríkið 2,25 milljörðum, svo það liggi algerlega fyrir það. Það var kostnaðurinn við það að selja erlendum fjárfestum. Og þeir erlendu fjárfestar sem keyptu, virðulegi forseti, seldu strax eins og búist var við. Það vissu það allir.

Mig langar að fara yfir einstök atriði. Var lögð áhersla á opið söluferli? Það segir á bls. 9 í skýrslu Ríkisendurskoðunar, með leyfi forseta:

„Bankasýslan taldi því að söluaðferðin væri ekki að fullu í anda meginreglna laga nr. 155/2012 hvað varðar opið söluferli og gagnsæi.“

Bankasýslan sjálf taldi að það væri ekki opið söluferli og gagnsæi. Hún hefur annaðhvort ekki lesið lögin eða guð má vita hvað hún var að gera. Í skýrslunni segir einnig, með leyfi forseta, á bls. 29:

„Að mati Ríkisendurskoðunar ber minnisblað Bankasýslunnar þess skýr merki að stofnunin hafi við ritun þess verið þeirrar skoðunar að tilboðsfyrirkomulag væri ákjósanlegasti valkosturinn við umrædda sölu. Bankasýsla ríkisins var meðvituð um að fyrirkomulagið væri ekki að fullu í anda meginreglna laga nr. 155/2012 um opið söluferli og gagnsæi …“

Þetta vissi hæstv. fjármálaráðherra, hann var upplýstur um þetta.

Var lögð áhersla á gagnsæi? Á bls. 8 í skýrslunni segir, með leyfi forseta:

„Hugtakanotkun og upplýsingagjöf í þeim gögnum sem Bankasýslan og fjármála- og efnahagsráðuneyti lögðu fyrir Alþingi voru ekki til þess fallin að draga upp skýra mynd af tilhögun söluferlisins.“

Það var ekki gagnsæi. Skýrslan sem var lögð fyrir Alþingi gaf ekki skýra mynd af tilhögun söluferlisins. Það var ekki gagnsæi. Í niðurstöðukafla skýrslu Ríkisendurskoðunar er sérstakur undirkafli sem heitir Gagnsæi og upplýsingamiðlun skorti í aðdraganda sölu. Hv. þingmenn geta lesið hann á bls. 9 í skýrslunni. Það liggur alveg klárt fyrir að gagnsæis var ekki gætt. Ein af ábendingum Ríkisendurskoðunar er að tryggja þurfi fullnægjandi upplýsingagjöf. Þetta er á bls. 18. Það eru fleiri ábendingar: Setja þarf skýr viðmið um matskennda þætti, ákvarðanir séu skjalfestar og gagnsæi tryggt. Það er ein ábending hérna í skýrslu Ríkisendurskoðunar að það þurfi að tryggja gagnsæi vegna þess að það var ekki farið að lögunum og gagnsæi tryggt. Svo einfalt er það. Á bls. 16 í skýrslunni segir, með leyfi forseta:

„Þegar fjármálaráðuneyti birti 6. apríl 2022 yfirlit yfir kaupendur eignarhlutarins mátti sjá að samþykkt voru tilboð frá eignastýringardeildum fjármálafyrirtækja án þess að nöfn þeirra aðila sem raunverulega voru að baki kaupunum hafi verið gefin upp til söluaðila Bankasýslunnar.“ (Forseti hringir.)

Bankasýslan gat metið það. Og varðandi hlutlægnina þá lá fyrir að það voru mismunandi atriði varðandi markmið. (Forseti hringir.) Sama má segja um fleiri atriði, hagkvæmni og annað slíkt. Það er alveg klárt mál að hér voru brotin lög. Hér ber að fá rannsóknarnefnd Alþingis til að rannsaka þetta frekar. (Forseti hringir.) Það á íslenska þjóðin skilið. Annars lærum við ekki af þessu, (Forseti hringir.) annars lærum við ekki af hruninu eða öðru hvað varðar eignir ríkisins.

(Forseti (OH): Forseti vill minna hv. þingmann á að virða ræðutímann. Forseta finnst eins og hann hafi áður áminnt hv. þingmann um þetta sama.)