Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[20:41]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ekki er lagt mat á það hvort þessi málefnalegu rök — sem voru kannski í rökstudda matinu frá Bankasýslunni sem Ríkisendurskoðun segir einmitt að sé án rökstuðnings — séu yfirleitt málefnaleg eða ekki og geri það að verkum að þetta söluferli hafi náð hæsta verði með tilliti til aðstæðna o.s.frv. Við vitum það bara ekki. En það bendir allt til þess í niðurstöðum skýrslunnar að svo sé ekki. Staðan er þannig hjá okkur núna.

Síðastliðið vor höfðum við allar þessar vísbendingar um brotalamir í öllu ferlinu, alveg frá ráðherra til þeirra sem voru að selja. En það voru bara vísbendingar. Við kölluðum eftir rannsóknarskýrslu af því að rannsóknarnefnd myndi ná yfir öll þessi atriði. Meiri hlutinn var fyrst hlynntur því en lagðist svo gegn því og fjármálaráðherra leggur til að Ríkisendurskoðun geri þessa skýrslu. Stjórnarandstaðan bregst við með því að benda á að Ríkisendurskoðun muni ekki skoða allt. Það var meira að segja augljóst af fenginni reynslu og við bentum á fordæmi fyrir því. Það er allt að rætast. Við fáum þessa skýrslu sem staðfestir allar vísbendingarnar um hvernig þetta klúðraðist á þeim sviðum sem Ríkisendurskoðun getur skoðað. Þá eigum við eftir að skoða þau atriði sem Ríkisendurskoðun skoðar ekki, t.d. þátt ráðherra, og enn fremur hvort það séu ekki bara vísbendingar heldur rök fyrir því að málið sé núna á alvarlegri stað. Það er búið að staðfesta ýmiss konar brotalamir þannig að við erum á alvarlegri staða núna en í vor. Þá ætti skrefið tvímælalaust að fara lengra áfram en ekki aftur á bak. (Forseti hringir.) Ef skýrsla Ríkisendurskoðunar hefði sagt: Nei, heyrðu, þetta voru bara misvísandi upplýsingar sem fólk fékk og þetta var ekki svona alvarlegt, (Forseti hringir.) þá hefðum við kannski ekki getað krafist rannsóknarskýrslu en við getum það hins vegar núna.