Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[20:44]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvar sitt. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir að þessa skýrslu megi lesa sem undirbúning fyrir þá ákvörðun að skipa rannsóknarnefnd Alþingis um bankasöluna. Hún staðfestir nánast alla þá gagnrýni og þanka sem m.a. fjárlaganefnd og þingið hafði varðandi brotalamir á sölunni. Nánast allt saman. Meira að segja er talað um á bls. 10 að það sé óljóst hverjir séu hæfir fjárfestar og hver sé skilgreiningin á þeim. Það virðist ekki vera vitað hverjum var einu sinni verið að selja. Það voru bara einhverjir fagfjárfestar sem söluaðilinn ákvað að skyldi hringt í. Í skýrslunni segir, með leyfi forseta:

„Það er niðurstaða Ríkisendurskoðunar að Bankasýslan hafi í aðdraganda söluferlisins ekki sinnt með fullnægjandi hætti hlutverki sínu skv. 3. mgr. 1. gr. laga nr. 88/2009 um stofnunina að tryggja gagnsæi í allri ákvarðanatöku …“

Það er alveg augljóst mál. Aftur og aftur telur Ríkisendurskoðun að ekki hafi verið gætt gagnsæis og get ég fundið það á fleiri stöðum.

Ekki var gætt hlutlægni. Forstjóri Bankasýslunnar og stjórnarformaður hafa samband við ráðherra um kvöldið og bera undir hann lokaverðið. Fjármálaráðherra gerir engar athugasemdir við það þegar þeir bera undir hann lokaverðið. Hann hefði getað sagt: Heyrðu, nei, það á að selja á 122 af því að það er umframeftirspurn á 122. Hann gerir það ekki sem er með hreinum ólíkindum. Með þessu eina símtali hefði hann getað sagt: Ég ætla ekki að taka 117 heldur 122 af því að ég get selt á því, mér er alveg sama þótt einhverjir bjóði lægra því að ég ætla að selja hæstbjóðanda. Það hefði hann getað gert í þessu símtali. Það gerði hann ekki og það er brot á lögunum. 3. gr. laga um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum er brotin. Svo einfalt er það.