Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[20:46]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á þessari einu slæðu í glærukynningu Bankasýslunnar fyrir bæði fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd á sínum tíma þá segir m.a. að til að ná forgangs- og meginmarkmiðið laga nr. 155/2012, um hagkvæmni, þ.e. hæsta verð, sé lagt til að næsta sala fari fram með tilboðsfyrirkomulagi, til að ná meginmarkmiðum laganna um hagkvæmni, þ.e. hæsta verð. Þetta sagði í kynningu Bankasýslunnar til þeirra þingnefnda sem hér hafa verið nefndar í dag.

Hv. þingmaður rakti þetta ágætlega og fór svo að lokum með réttu töluna, 2 milljarðar og 250 milljónir, sem var þá sú tala sem hefði verið hægt að fá miðað við að selja á 122. Bankasýslan er búin að nefna í dag að hefði verið selt á 118 hefðu þetta verið 500 og eitthvað milljónir. Ef langtímafjárfestum hefði verið selt, ég held að það hafi verið tekið þannig til orða, væntanlega eru það lífeyrissjóði, upp á 120 miðað við þeirra tilboð hefðu fengist 1,5 milljarðar aukalega. En það er ákveðið á einhvern ótrúlegan hátt að samþykkja 117. Vegna hverra? Af hverju var verið að samþykkja 117 þegar það lá t.d. fyrir að langtímafjárfestar voru tilbúnir að kaupa á 120 og aðrir, eins og hv. þingmaður nefndi hér áðan, það var 20% umfram eftirspurn miðað við tölurnar 122 og hærra. Hvernig stendur á því? Getum við eitthvað gert okkur grein fyrir því? Eins og hér er verið að segja, er ekki verið að brjóta lög þarna?