Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[20:48]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Er ekki að vera brjóta lög hérna? Jú, ég tel svo sannarlega að það sé verið að gera það en ég er ekki dómstóll, ég er ekki rannsóknarnefnd Alþingis og ég hef bara mína skoðun. Ég stend hér sem venjulegur þingmaður og segi að það hafi verið brotin lög við söluna. Ég er búinn að færa rök fyrir því tel ég. Þess vegna er svo mikilvægt að fá úr þessu skorið. Við lærum aldrei af hruninu. Þetta eru eftirstöðvar hrunsins. Þetta er eitt af málunum sem við erum með til meðferðar sem eftirstöðvar hrunsins, hitt er ÍL-sjóður. Það segir hérna í skýrslunni á bls. 13 að Bankasýsluráðgjafarnir hafi talið þátttöku erlendu fjárfestanna mikilvæga. Svo segir, með leyfi forseta:

„Mat á áhrifum sölunnar á eftirstandandi hlut ríkissjóðs byggði á huglægu mati umsjónaraðila sem erfitt er að sannreyna eða hrekja. Erfitt er að meta hvaða áhrif minni afsláttur á kostnað dræmari þátttöku erlendra fjárfesta hefði haft …“ — Og svo bla, bla, bla.

Málið er bara að það lá fyrir alla söluna að hann gat selt á 122 og það er það sem skiptir máli. Það að segja að erlendir fjárfestir hafi minnst á það — þeir voru búnir að lýsa yfir áhuga, búnir að senda inn tilboðin sín. Þau voru bara lægri og það átti að losna við bréfin á hæsta verði eins og var forgangsmarkmið. Það er brot á lögunum að hafa ekki sinnt þessu forgangsmarkmiði. Ef þú setur þér markmið áttu að ná því markmiði. Það var ekki einu sinni gert. Það er líka brot líka á lögunum. Það er kveðið á um þetta í 2. eða 3. gr. laganna um sölumeðferðina, að ráðherrann eigi að setja markmið. En hann fór ekki einu sinni eftir þeim. Þetta með erlendu fjárfestana, þeir kaupa á lágu verði til að geta selt á háu verði. Það er eina ástæðan fyrir því að þeir keyptu þetta, af því að þeir fengu það á spottprís. Svo selja þeir og græða. Hagnaður þeirra er tap íslensks ríkissjóðs og það er líka brot á lögunum, að þeir skyldu selja þeim, af því að erlendu fjárfestarnir eru ekki langtímafjárfestar. Það var ekkert sem lá fyrir um það að þeir ætluðu að vera lengi hérna. Mér skilst að sé búið að tala við erlenda bankamenn í Skandinavíu um kaupa bankann. Þeir hafa ekki áhuga. (Forseti hringir.) Ég tel að það sé ekki íslenska krónan. Ég tel að ástæðan sé það fúsk og vanhæfni sem ræður ríkjum á Íslandi.